Sleppti mjólkurvörum í þrjár vikur

Styrmir Kári

Eru mjólkurvörur góðar eða slæmar? Er lífið mögulega einfaldara án þeirra? Nú velta eflaust margir þessu fyrir sér en við rákumst á ansi skemmtilega grein inn á Runners World þar sem blaðamaður hætti að borða mjólkurvörur í heilar þrjár vikur og tók svo saman niðurstöðurnar. 

Blaðamaðurinn, Rebeca Straus, segir í upphafi greinarinnar að hún sé afskaplega hrifin af mjólkurvörum og því hafi hún verið forvitin að vita hvaða áhrif mjólkurleysið myndi hafa en hér má sjá þau atriði sem hún tiltók.

Það skal skýrt tekið fram að Straus er ekki sérfræðingur í næringarfræði eða með neina haldbæra þekkingu á mjólkurvörum fyrir utan að finnast þær góðar. Hins vegar þykir greinin fyndin og við birtum helstu atriði hennar til gamans.

Í upphafi leið henni eins og hreinfæðis-gyðju

Straus segist hafa pantað sér vegan hrísgrjónarétt með tófu í mötuneytinu í vinnunni og fundist það sérlega vel af sér vikið. Hún varð merkilega södd af réttinum og fannst hann góður á bragðið. Hún velti því fyrir sér í fúlustu alvöru hvort hún gæti ekki leikið þetta eftir heima hjá sér. Næstu daga mætti hún með salat í vinnuna. 

Svo varð hún sorgmædd 

Sjálfsánægjan leið undir lok á undraskömmum tíma. Straus segist hafa staðið sig að því þegar hún borðaði hollustufæðið sitt að velta því fyrir sér hvort þetta væri ekki miklu betra með osti. Síðan hafi hún lagt í botnlausa sjálfsvorkun yfir því að mega ekki borða ost auk þess sem hún varð hundleið á salati. Í stað þess að beita ímyndunaraflinu hélt hún sig við hnetusmjörssamlokur og engdist um í eigin eymd. 

Hún komst að því að hún hefur enga sjálfsstjórn

Straus segir að sig hafi langað helmingi meira í mjólkurvörur fyrst þær voru bannaðar og það hafi komið þó nokkuð oft fyrir að hún hafi fallið í freistni og svindlað en þó aðallega af tillitssemi við annað fólk sem var að bjóða upp á veitingar og þess háttar. Þessi hegðun hennar leiddi í ljós að hún er afskaplega veikgeðja. 

Mér leið nákvæmlega einsog áður

Þrátt fyrir nokkur feilspor borðaði hún umtalsvert minna af mjólkurvörum þessar þrjár vikur en á sinni gjörvallri lífsleið. Samtals voru þetta ellefu dagar þar sem hún borðaði engar mjólkurvörur, fimm þar sem hún svindlaði einu sinni og fimm dagar þar sem hún þjáðist af botnlausum mjólkursöknuði. Hún tók ekki eftir neinum líkamlegum breytingum. Hún var jafn þung, jafn orkumikil og leið nákvæmlega eins. 

Hún fylltist efasemdum

Straus segist ekki hafa vita hverju við var að búast nema þá kannski að hún yrði léttari á sér, grennri og með meiri orku en þar sem ekkert af þessu gerðist ákvað hún að hætta þessari sjálfspíningu og halda sig við sitt fyrra mataræði enda segist hún hafa þrifist ágætlega á því og sjái ekki ástæðu til þess að breyta nokkru.

Sjá greinina eftir Straus í Runners World. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert