Einungis opinn í fjóra mánuði á ári

Katrín Gísladóttir, móðir Gísla,Gísli Matt og Indíana Auðunsdóttir systir hans. …
Katrín Gísladóttir, móðir Gísla,Gísli Matt og Indíana Auðunsdóttir systir hans. Á myndina vantar Auðun Arnar Stefnisson, föður Gísla og Indíönu.

Sælkerar nær og fjær hafa flykkst til Vestmannaeyja síðustu sumur til að borða á veitingastaðnum Slippnum sem einungis er opinn frá maí til septemberbyrjunar. En hver er galdurinn á bak við þennan margrómaða stað? Matarvefurinn náði í einn eiganda staðarins, matreiðslumanninn Gísla Matthías Auðunsson, sem mitt í sumartörninni er að vinna að opnun nýs staðar á matartorginu við Hlemm. „Sá staður mun heita SKÁL! og verður opnaður þegar Hlemmur mathöll verður opnuð – á næstu vikum,“ segir Gísli en þessa stundina er það Slippurinn sem á alla hans athygli.

Súkkulaðimús með kerfilkrapi, súrmjólkurfroðu og lakkríssaltmarengs.
Súkkulaðimús með kerfilkrapi, súrmjólkurfroðu og lakkríssaltmarengs. mbl.is/Íris Ann

Slippurinn er fjölskyldustaður sem virkilega gaman er að koma á. Gísli, systir hans Indíana og foreldrar þeirra eiga og reka staðinn með miklum myndarbrag svo dæmi eru um að fólk fari dagsferð til Eyja einungis til að borða hjá fjölskyldunni.“

Skessujurtargin í Greip.
Skessujurtargin í Greip. mbl.is/Íris Ann
Íslensk hörpuskel á brauði í rabarbaraediki með hvannarmajónesi.
Íslensk hörpuskel á brauði í rabarbaraediki með hvannarmajónesi. mbl.is/Íris Ann


Hvað einkennir Slippinn?

„Frá degi eitt höfum við leitast við að vera eins árstíðar- og staðbundin og við getum. Bjóða upp á áhugaverðan og bragðgóðan mat og drykki og veita bestu þjónustu sem völ er á. Við leggjum mikið upp úr að það sé gaman og notalegt að koma á Slippinn og njóta.“

Hver er vinsælasti rétturinn?
„Vinsælustu réttirnir eru án efa fiskréttirnir. Nálægðin við fiskimiðin tryggir okkur eitt besta hráefni sem völ er á og við reynum að nýta það til fulls. Annars eru eftirréttirnir einnig rosa vinsælir.“ Matseðillinn hjá Slippnum inniheldur því mikið af hráefnum úr nærumhverfinu svo sem skessujurt, rabarbara og reyniber.

Hvað væri aldrei á matseðlinum hjá ykkur?
„Aldrei að segja aldrei en við værum seint með pítsu á matseðlinum, einfaldlega út af konseptinu okkar á Slippnum. Ég elska samt pítsur!“

Hvað finnst þér um íslenska veitingahúsamenningu?
„Hún er að verða mjög sterk og með fjölgun ferðamanna verður hún alltaf betri og betri. Ég er mjög spenntur fyrir Hlemmi mathöll, ég er einmitt að opna stað þar sem mun heita SKÁL! ásamt vinum mínum Birni Steinari og Gísla Grímssyni,“ segir Gísli að lokum með mörg girnileg járn í eldinum.

Reyniberjanegroni.
Reyniberjanegroni. mbl.is/Íris Ann
Heileldaður sólkoli með capers og skessujurtarvinaigrette og gufusoðnum strandarjurtum.
Heileldaður sólkoli með capers og skessujurtarvinaigrette og gufusoðnum strandarjurtum. mbl.is/Íris Ann
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert