Beint af bryggjunni á Stykkishólmi

Ásdís Ásgeirsdóttir

Það er sól og spegilsléttur sjór í Stykkishólmi þennan dag og fjöldi fólks snæðir bláskel úr koparpottum utandyra hjá Söru í Sjávarpakkhúsinu. Sara hefur rekið veitingastaðinn í fimm ár og segir hann ganga vel. „Þetta er að verða minna hark, sumrin eru að lengjast og það styttist í að þetta verði sjálfbært allt árið,“ segir Sara sem er borin og barnfædd í Stykkishólmi.

Lítið og krúttlegt

Beðin um að lýsa staðnum segir Sara: „Þetta er allt svona lítið og krúttlegt, við erum ekkert að flækja hlutina. Við reynum að hafa matinn heiðarlegan, ef hægt er að orða það svo, það er ekkert verið að plata neitt, engir stælar. Við fáum hráefnið hér beint af bryggjunni. Við getum horft á Símon á bátnum koma inn með kræklinginn. Við sjáum á eftir honum hér út á morgnana og þegar hann kemur inn og leggur að bryggjunni. Við fáum kræklinginn hér beint inn, hann stoppar hvergi á leiðinni,“ segir Sara og bætir við: „Við reynum að kaupa allt „lókal“ sem hægt er. Salatið, blómin og kryddjurtirnar eru ræktaðar hér á Lágafelli sem er hérna hinum megin við fjallið, allt lífrænt ræktað.“

Bláskelin vinsælust

Sjávarpakkhúsið er opið frá hádegi til tíu á kvöldin og á matseðlinum er lögð áhersla á sjávarfang. „Við reynum að hafa fáa en góða rétti á matseðli, en það er líka vegna þess að eldhúsið okkar er rosalega lítið, fjórir fermetrar,“ segir hún en staðurinn tekur þrjátíu inni og á góðviðrisdögum geta þrjátíu einnig setið úti.

„Bláskelin er án efa vinsælasti rétturinnn, rúmlega 60% af öllu sem við seljum,“ segir hún. „Annars er uppáhaldsrétturinn minn grafni þorskurinn,“ segir Sara og blaðamaður getur sannarlega mælt með þeim rétti!

Ásdís Ásgeirsdóttir
Ásdís Ásgeirsdóttir
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert