Sunnudagsveisla Ágústu Johnson

Ágústa er meistari í að sameina góðan en hollan mat.
Ágústa er meistari í að sameina góðan en hollan mat. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við hjónin erum alltaf með huggulegan sunnudagsmat og þá koma allir, börnin öll og tengdabörn, mjög skemmtilegur fastur punktur í tilverunni. Þennan rétt höfum við stundum eldað og er hann í miklu uppáhaldi hjá mér. Kjúklingur, rauðrófur og hummus er dásamlegt combo,“ segir Ágústa Johnson, heilsudrottning eigandi Hreyfingar, í samtali við Matarvefinn. Ágústa og eiginmaður hennar, þingmaðurinn Guðlaugur Þór Þórðarson, kunna vel að meta góðan mat og þessi uppskrift er engin undantekning.

Sunnudagsveislan á heimili Ágústu og Gulla er stórkostleg.
Sunnudagsveislan á heimili Ágústu og Gulla er stórkostleg. mbl.is/Ágústa Johnson

Sunnudagsveisla Ágústu Johnson

Kjúklingur: 

2 heilir kjúklingar
1 búnt graslaukur
2 sítrónur
2 heilir hvítlaukar
2 cm engiferrót
2 msk. arabískt kjúklingakrydd frá Pottagöldrum
1 msk. ungverskt paprikukrydd frá Pottagöldrum
1/2 msk. kanill
Sjávarsalt
svartur pipar 

Afhýða hvítlauk og engifer, skera sítrónu í fjóra hluta. Klippa graslauk niður. Kryddar kjúkling að innan með salti og pipar. Setur 4 hvítlauksrif, engiferbút (ca. 1 cm) og helming af graslauk og tvo hluta af sítrónu inn í hvorn kjúkling. Blandar saman þurrkryddi og makar utan á allan kjúklinginn og togar aðeins frá skinnið við bringurnar og sáldrar kryddi þar ofan í. Nuddar vel alls staðar og ríkulega.

Kreistir hálfa sítrónu yfir hvorn kjúkling. Ég henti að lokum restinni af hvítlauksrifjunum með í pottinn í hýðinu. Hann verður svo svakalega mjúkur og góður.

Svo er þetta sett í ofninn. Ég notaði Rómarpottinn minn (Römertopf-leirpottur) en má setja í svarta steikarpottinn eða bara inn á steikarfati.

Eldað við 180 C° með loki í klukkustund og án loks í 30 mín. 

Hummus:

1 krukka kjúklingabaunir frá Himnesku.  Vökvanum hellt af og baunirnar skolaðar vel.
1 stórt hvítlauksrif
4 msk. hvítt tahini
2 msk. sítrónusafi
tæplega 1 tsk. sjávarsalt
1/4 tsk. cumin
smá vatn og fín og góð extra virgin ólífuolía

Allt sett í blandara nema olían. Hrært vel þar til allt er mjúkt og kekkjalaust. Set smá olíu út á síðast... eftir smekk. Ég sett ca. 2 msk.

Bakaðar rauðrófur og zucchini (notaði zucchini bara af því ég átti það í ísskápnum, annars hefði ég bara verið með rauðrófur en zucchini var líka mjög gott):
Afhýða og skera niður rauðrófur og zucchini og setja í skál og hella út á smá extravirgin ólífuolíu og salt og svartan pipar og blanda vel saman. Setja á bökunarplötu og baka í ca. 60 mín. eða þar til rauðrófurnar eru mjúkar og zucchini er gullinbrúnt.

Ég setti líka hvítlauksrif af heilum hvítlauk með á plötuna því við elskum hvítlauk!! 

Passar að henda þessu í ofninn þegar kjúllinn hefur verið þar í 30 mín.

Jógúrtsósa:
Grísk jógúrt ( ég notaði þessa lífrænu frá Bíó-bú) smá cayennepipar og sírópsskvetta (eða önnur sæta) og hálf niðurskorin agúrka, skera smátt og taka miðjuna úr. 

Naan-brauð:
Hægt að kaupa tilbúið t.d. hjá Saffran en gott að gera heimabakað.
Ég hef notað nokkrar uppskriftir.  Þessi er t.d. góð:
http://www.mbl.is/smartland/matur/hagkaup/475/dverg-naan-braud/ 

Best er að gera hummusinn og jógúrtsósuna áður og leyfa að standa, betri þannig.  Ég læt sósuna standa í kæliskáp en hummusinn á borðinu með plastfilmu.

Málið er að hummus og rauðrófur eru fullkomið "match made in heaven" og arabíski kjúllinn, jógúrtsósan og naan-ið eru svo ljómandi góð með... svo ekki sé minnst á gott rauðvín...eða hvítt ef því er að skipta.

Njótið vel!

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Ágústa Johnson, framkvæmdastjóri Hreyfingar. mbl.is/Golli/Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert