Breytingarnar kostuðu tæpar tvær milljónir

Grái liturinn kemur vel út en svokölluð shaker eldhús eins …
Grái liturinn kemur vel út en svokölluð shaker eldhús eins og sjást hér eru mikið í tísku. mbl.is/Elísabet Lára Tryggvadóttir

„Þegar við keyptum húsið í lok september í fyrra þá var engin spurning um að eldhúsið þyrfti að taka í gegn,“ segir Elísabet Lára Tryggvadóttir sem tók eldhúsið sitt alveg í gegn ásamt fjölskyldunni og eru breytingarnar stórkostlega vel heppnaðar.

Elísabet segir að það hafi aldrei verið nein spurning með hvort skipta þyrfti um eldhús. Gamla eldhúsið hafi verið komið á tíma auk þess sem í eldhúsinu var að finna stigahús með bröttum hringstiga. „Við ákváðum að taka þetta stigahús og fylla upp í gatið á gólfinu til að nýta plássið sem best, bóndinn smíðaði svo stiga í endanum á ganginum þar sem fyrir var geymslur sem við ætluðum okkur aldrei að nota. Við fórum reyndar í nokkra hringi varðandi uppsettningu á eldhúsinu en þetta kom best út svona til að nýta borðplássið í elhúsinnréttingunni. Við settum líka glugga á norðurhliðina því útsýnið í norður er stórkostlegt og okkur fannst það nauðsynlegt að vera með glugga fyrir ofan eldhúsvaskinn.“

Eldhúsið er einstaklega vel heppnað.
Eldhúsið er einstaklega vel heppnað. mbl.is/Elísabet Lára Tryggvadóttir
„Við vorum með ákveðið útlit á innréttingu í huga og skoðuðum innréttingar hjá mörgum fyrirtækjum en fundum svo eldhúsinnréttinguna hjá Fríform í Kópavoginum. Þjónustan þar var frábær í alla staði og þau vildu allt fyrir okkur gera. Gæðin á innréttingunni fannst okkur betri en annarsstaðar og verðið viðráðanlegt. Við keyptum einnig borðplötuna, bakarofninn, helluborðið, háfinn, uppþvottavélina, eldhúsvaskinn og blöndunartækin hjá þeim.“

Hvað kom þér mest á óvart við kaup á nýju eldhúsi?

„Það sem kom mér kannski mest á óvart var hversu hratt það gekk fyrir sig að koma innréttingunni upp. Maðurinn minn og bróðir hans voru ótrúlega snöggir að þessu en mágur minn er smiður og leiðbeindi okkur af stakri snilld. Ég reyndi að vera dugleg með ryksuguna og kústinn til að hafa hreint í kringum þá og 15 ára sonur okkar raðaði upp og sorteraði pakkningunum svo þeir ættu greiða leið að þessu öllu saman.“
Nýji glugginn gerir mikið og útsýnið ekki af verri endanum.
Nýji glugginn gerir mikið og útsýnið ekki af verri endanum. mbl.is/Elísabet Lára Tryggvadóttir
Hvað er skemmtilegast við nýtt eldhús?

„Það er að njóta þess að baka og elda og get ég gjörsamlega gleymt mér í eldhúsinu. Vinnuumhverfið er allt annað en gamla eldhúsið og nóg pláss til að athafna sig og ekki skemmir fyrir hversu fallegt það er.“ 

Ert þú með einhver ráð til þeirra sem huga á eldhúsbreytingar?

„Að skoða vel og vandlega gæðin og lausnirnar sem fyrirtæki hafa uppá að bjóða því það er svo ótrúlega margt sniðugt í boði til að einfalda geymslupláss í eldhúsinu. Svo er nauðsynlegt að allir séu sammála hvernig uppsettningin á að vera, eins og í okkar tilfelli að ef við vorum í vafa með eitthvað þá gat Ágústa hjá Fríform komið með frábærar hugmyndir sem nýttust okkur vel. 
Svo er líka lykilatriði að eiga góðan örbylgjuofn og góða fjölskyldu því á meðan að við vorum ekki með neitt eldhús þá redduðum við okkur með 1944 réttum og svo var mágkona mín og svili dugleg að bjóða okkur í mat en þau búa á sveitabæ fyrir ofan okkur og redduðu okkur alveg.“

Var kostnaðurinn meiri eða minni en þú bjóst við?

Við vorum svo sem ekkert með einhverja ákveðna upphæð í huga en við erum líka ekki alveg búin með eldhúsið. Eigum eftir að kaupa okkur nýtt eldhúsborð og stóla og eigum kannski eftir að setja flísar fyrir ofan helluborðið. Við höfum ekkert verið að stressa okkur á því, höfum líka verið að taka allt heimilið í nefið en það sem við erum búin að eyða í bara eldhúsið og þá með öllu eru tæpar tvær milljónir. Þá erum við að tala um innréttingu, öll tæki í eldhúsinu, gólf- og loftaefni, steypu og hleðslustein, málningu, sparsl og glugga."
Hér má sjá eldhúsið eins og það leit út þegar …
Hér má sjá eldhúsið eins og það leit út þegar þau keyptu húsið. mbl.is/Elísabet Lára Tryggvadóttir
„Þegar við fluttum inn um haustið 2016 þá var nú ekki langur tími til jóla en við vorum með markmið um að koma upp eldhúsinu og stofunni fyrir jólin, 5. desember var búið að saga fyrir glugganum í eldhúsinu, taka allt gamalt gólfefni af efri hæðinni og flota, skera niður vegg í stofunni, stækka öll hurðarop og skera í burtu gólf fyrir stiganum þar sem fyrir voru tvær geymslur.“
Og hér gefur að líta eftir að framkvæmdir hófust.
Og hér gefur að líta eftir að framkvæmdir hófust. mbl.is/Elísabet Lára Tryggvadóttir
„11. desember kláruðum við að loka gati á milli eldhúss og baðherbergis, 12. desember settum við gluggann í opið í eldhúsinu. 18. desember fór eldhúsinnréttingin upp og 20. desember fór parketið á alla efri hæðina. Þegar kom að aðfangadegi þá vorum við enn að fínpússa og undirbúa jólin, kl. 17:45 sama dag stóðum við hjónin sveitt við matargerðina, ég var ekki enn komin í jólafötin og átti eftir að pakka inn fjórum jólagjöfum þegar bóndinn segir við mig að við skyldum bara slá þessu uppí kæruleysi og fá okkur sitthvort hvítvínsglasið og seinka aðeins matnum, jólin myndu hvort eð er koma þó svo við yrðum ekki tilbúin með allt kl. 18:00! Svo þetta hafðist allt saman og gátum við haldið jólin með börnunum okkar í nýrri stofu og með nýtt eldhús sem var dásamlegt. En við kláruðum líka alla orku sem við höfðum og vorum í fríi frá framkvæmdum allan janúar.“
„Þetta er svo algjörlega búið að vera þess virði að gera þetta allt eftir sínu höfði, við fengum nokkrar milljónir á milli eftir sölu á gamla húsinu okkar og fengum þetta hús á mjög góðu verði þannig að við gátum gert þetta allt eins og við vildum hafa það. Hún Soffía hjá Skreytum hús blogginu hefur gefið mér góðan innblástur og sýnir að það er líka hægt að hafa fallegt heima hjá sér fyrir ekki mikinn pening. Ég á ekki mikið af hönnunarhlutum og flest af því sem ég hef notað til að gera eldhúsið og heimilið fallegt hefur verið keypt fyrir lítinn pening hjá Húsgagnahöllinni, Rúmfatalagernum, Pier, Søstrene grene og Tiger.​"
Hér má sjá rýmið nánast fokhelt.
Hér má sjá rýmið nánast fokhelt. mbl.is/Elísabet Lára Tryggvadóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert