Bleikja, falið grænmeti og rjómalöguð hvítvínssósa

Girnilegra verður það vart!
Girnilegra verður það vart! mbl.is/Ragnar Freyr

Læknirinn í eldhúsinu tekur mánudagsfiskinn upp á næsta plan og notar til þess spíralskera (fæst í Rúmfó og Kokku).

„Ég keypti þennan "spirulizer" þegar ég var í USA fyrir ári á námskeiði í lyflækningum. Þetta er hentugt til að gera fallega borða úr grænmetinu. Fyrir þá sem langar að skipta pasta út fyrir eitthvað annað má nota þetta apparat til að skera út kúrbít eða sætar kartöflur og nota í staðinn fyrir spaghetti.

En mig langaði aðallega í fallegt beð af grænmeti og því ekki að nota nokkuð nýlegt leikfang sem ég hafði ekki verið nógu duglegur að leika mér með,“ segir Ragnar Freyr Ingvason matarbloggari.

Ljómandi klausturbleikja á fjölskrúðugu grænmetisbeði með hvítvínslagaðri rjómasósu

Hráefnalisti - fyrir fimm

1 kg klausturbleikja
2 kúrbítar
2 hnúðkál
2 stórar gulrætur
1 glas hvítvín
2 hvítlauksrif
100 ml fiskisoð
75 ml rjómi
1 tsk. worchestershire-sósa
salt og pipar
3-4 msk. jómfrúarolía
1 sítróna
1 msk. fersk steinselja

Byrjið á því að skera grænmetið niður í borða (auðvitað má skera það niður á hvaða hátt sem er). Hitið olíuna á pönnu og þegar hún er heit steikið þá grænmetið í nokkrar mínútur. Saltið og piprið.

Þegar grænmetið er mjúkt og eldhúsið ilmar dásamlega, hellið þið hvítvíninu á pönnuna og sjóðið upp áfengið. Bætið svo soðinu og rjómanum saman við og sjóðið niður um þriðjung.

Skolið og þerrið bleikjuna og saltið hana og piprið.

Leggið bleikjuna ofan á grænmetið þannig að hún mari upp úr kafinu.

Setjið lok á pönnuna – eða hyljið hana með álpappír í nokkrar mínútur svo fiskurinn fái að eldast í gegn.

Takið svo lokið af og stingið nokkrum sítrónubátum með inn á milli bleikjuflakanna.

Spíralskerar eru mikil snilld.
Spíralskerar eru mikil snilld. mbl.is/Ragnar Freyr
Sagði einhver rjómi?
Sagði einhver rjómi? mbl.is/Ragnar Freyr
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert