Svava djúpsteikti Oreo og tryllti matarboðið

Sturluð samsetning sem kallar kannski á aukatíma í líkamsrækt en …
Sturluð samsetning sem kallar kannski á aukatíma í líkamsrækt en er sannarlega þess virði. mbl.is/ljufmeti.com

Svava Gunnarsdóttir matarbloggi á ljúfmeti.com djúpsteikti Oreo handa matargestum nýlega. Útkoman var sannkölluð bomba sem minnir á einna helst á blöndu af súkkulaðiköku og nýsteiktum kleinuhringjum, stökkt að utan og mjúkt að innan. „Þetta verðið þið að prófa, svo brjálæðislega gott að það nær engri átt!“ segir Svava um gúmmelaðið.

Djúpsteikt Oreokex

  • 2 ¼ dl mjólk
  • 1 egg
  • 2 tsk. bragðdauf olía (ekki ólívuolía)
  • 2 ¼ dl amerískt pönnukökumix (keypt tilbúið í matvörubúðum)
  • 1 Oreo-kexpakki
  • olía til að djúpsteikja í
  • flórsykur
  • vanilluís
  • súkkulaðisósa

Blandið saman mjólk, eggi og olíu í skál og hrærið síðan pönnukökumixinu saman við. Látið deigið standa í nokkrar mínútur. Hitið djúpsteikingarpott (eða olíu í potti) í 180°. Dýfið Oreo-kexinu vel ofan í deigið og djúpsteikið nokkrar í einu í um 2-3 mínútur, eða þar til þær hafa fengið fallegan lit og orðnar stökkar að utan. Látið renna af þeim á eldhúspappír og berið síðan strax fram með ís, súkkulaðisósu og sigtið smá flórsykur yfir.

Súkkulaðisósa

  • 1 dl sykur
  • 1 dl kakó
  • 1 dl rjómi
  • 30 g smjör

Setjið allt í pott og látið suðuna koma varlega upp. Látið sjóða við lágan hita í 5 mínútur og hrærið reglulega í pottinum. Leyfið sósunni að kólna aðeins og berið hana fram volga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert