Fílakaramellusósa Birgittu Haukdal

Víkingur Brynjar og Saga Júlía njóta góðs af frásagnarlist móður …
Víkingur Brynjar og Saga Júlía njóta góðs af frásagnarlist móður sinnar. mbl.is/Árni Sæberg

„Jólin eru fyrst og fremst fjölskylduhátíð í mínum huga. Dásamlegur tími sem fjölskyldan nýtur saman í friði og ró frá öllu amstri,“ segir Birgitta Haukdal, söngkona og rithöfundur, aðspurð hvort hún sé jólabarn. Hún sendi nýverið frá sér nýja barnabók um Láru og Ljónsa en bækurnar njóta mikilla vinsælda.

„Í ár komu út 5. og 6. Lárubókin þar sem annars vegar Lára fer í sund með afa og hins vegar þegar Lára heldur jól. Ég gaf líka út tvær ungbarnamyndabækur fyrir þau allra yngstu þar sem ég var með ungbarn sem veitti mér innblástur þannig að í dag eru Lárubækurnar orðnar átta talsins. Á nýja árinu heldur Lára að sjálfsögðu áfram að gera og læra eitthvað nýtt og skemmtilegt. Börnin mín veita mér mikinn innblástur fyrir sögurnar og mér finnst alveg ótrúlega skemmtilegt að vinna þessar bækur. Ég óska þess heitt að bækurnar mínar gangi vel svo að ég fái tækifæri til þess að halda áfram að skapa ný ævintýri fyrir Láru og Ljónsa á nýju ári,“ segir Birgitta, sem nýtur aðventurnar og þá sérstaklega ef piparkökulykt er í loftinu.

„Aðfangadagur hefur alltaf verið notalegur og rólegur hjá okkur og laus við allt stress. Það mætti segja að í dag sem og þegar ég var lítil hafi hann alls ekki verið ólíkur aðfangadegi Láru og Ljónsa,“ segir Birgitta en matur er áberandi í bókunum hennar. Þar borðar fjölskyldan gjarnan saman og mikið er lagt upp úr notalegri stund í eldhúsinu hvort sem það er pabbi Láru að gera hafragraut eða mamma og Lára að baka.

Situr uppi með gamlar smákökur 

„Mamma bakaði mikið fyrir jólin með okkur og nýt ég þess í dag að baka og föndra með börnunum mínum. Að baka piparkökur og piparkökuhús er í sérstöku uppáhaldi hjá þeim og þessa dagana biður Saga Júlía, tveggja ára dóttir mín, um það á hverjum degi að fá að baka piparkökur. Ég er þó ekki það myndarleg að hún fái það í gegn. Oft finnst mér samveran og ilmurinn úr eldhúsinu vera aðalatriðið frekar en að borða kökurnar, sem verður til þess að ég sit svo uppi með gamlar smákökur sem gleymdist að bera fram eftir jólin.“

Birgitta og fjölskylda borða gjarnan rjúpur um jólin en eftirréttavalið er í höndum sonarins.  „Í dag borðum við reyktan lambahamborgarhrygg og rjúpur þar sem maðurinn minn veiðir þær og ólst upp við að borða rjúpur sem barn. Í fyrra gerðum við rjúpusúpu í forrétt en í ár ætlum við að hafa léttsteiktar rjúpnabringur í forrétt. Víkingur sonur okkar fær að ráða eftirréttinum og velur heimagerðan vanilluís með fílakaramellusósu,“ segir Birgitta og deilir hér með okkur sósunni ljúfu.

„Uppskriftin er einföld. Þeir sem kunna á Mars-sósuna góðu kunna þessa eflaust.

Slatti af fílakaramellum settur í pott og rjóma slett eftir smekk. Gott að byrja á um þremur matskeiðum af rjóma og sjá svo til. Mikilvægt er að hafa hitann ekki of háan svo þetta brenni ekki. Leyfa karamellunni að bráðna rólega og hræra oft í. Okkur þykir gott að hafa sósuna þykka og bera hana fram vel volga.“

Birgitta Haukdal gerir gjarnan piparkökuhús fyrir jólin en Lára bakar …
Birgitta Haukdal gerir gjarnan piparkökuhús fyrir jólin en Lára bakar einnig piparkökur í bókinni. mbl.is/Árni Sæberg
Birgitta Haukdal
Birgitta Haukdal Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert