Lasagna með eggaldin- og ostatryllingi

Virkilega gott. Hakkið hentar einnig vel í burrito og taco.
Virkilega gott. Hakkið hentar einnig vel í burrito og taco. mbl.is/TM

Í kvíðakasti eftir ofát jólanna ákvað ég að elda meira af grænmetisréttum í janúar en leyfa ostinum að blómstra með svo heimilisfólkið tæki minna eftir kjötleysinu. Þessi réttur heppnaðist fullkomlega og verður að teljast til minna helstu eldhúsafreka það sem af er ári og ég mun án efa elda hann aftur. Fyrir þá sem vilja má vissulega nota lasagnaplötur í staðinn fyrir eggaldin.

Með réttinum er gott að bera fram klettasalat með sítrónuolíu, léttsteiktu blómkáli, fetaosti, rauðlauk og granateplum.

Pastalag
2 eggaldin
2 msk olía 
1 msk ítalskt krydd 

„Hakkið“:
1 laukur 
1 vænn hvítlaukur
1 rauð paprika
200 g rauðar linsubaunir 
100 g kínóa 
1 dós hakkaðir tómatar 
4 msk tómatpúrra
2 msk rjómaostur 
1 msk furuhnetur ef vill 
salt (ég nota parmesansalt frá Nicholas)
pipar
1 msk ítalskt krydd
1/2 msk bbq cajun-krydd

Hvíta lagið (toppur):
500 g kotasæla 
3 msk parmesan
rifinn ostur eftir smekk 
1 msk þurrkuð basilíka
toppað með piccolotómötum ef vill 

Leggið baunir og kínóa í bleyti.

Skerið eggaldin í sneiðar, u.þ.b. hálfan cm. Raðið sneiðunum á bökunarpappír og penslið með olíu. Saltið og kryddið með ítalskri kryddblöndu. Bakið á 180 gráðum og blæstri í 20 mínútur. Setjið á grillið síðustu fimm mínúturnar. 

Á meðan eggaldinið er í ofninum er fyllingin gerð. Steikið lauk upp úr olíu uns glær. Bætið þá við hvítlauk og papriku. 

Sjóðið kínóa og linsubaunir samkvæmt leiðbeiningum á pakka. Bætið því út í pottinn ásamt tómötum, púrru, furuhnetum, rjómaosti og kryddi. Látið malla í 10 mínútur. Smakkið til með salti og pipar.

Raðið eggaldininu í botninn og hakkið yfir. Svo kemur restin af eggaldinsneiðunum og loks kotasæla, ostur og basilíka. Tómatar ef þeir eru notaðir.

Bakað við 180 gráður í 20 mínútur og á grilli í auka fimm mínútur.

Hér er smá klettasalat notað sem skraut. Toppurinn væri að …
Hér er smá klettasalat notað sem skraut. Toppurinn væri að setja ferska basilíku. mbl.is/TM
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert