Rafn vill að þú drekkir kombucha

Rafn Franklín Johnson er einkaþálfari í Hreyfingu. Hann hefur ekki …
Rafn Franklín Johnson er einkaþálfari í Hreyfingu. Hann hefur ekki langt að sækja heilsuáhugan en hann er sonur Ágústu Johnson. mbl.is/rafnfranklin.is

Rafn Franklín Johnson, kraftlyftingamaður og einkaþjálfari hjá Hreyfingu, segir kombucha-drykkinn sem nú nýtur milkilla vinsælda vera mikið heilsuundur. Drykkurinn er í stuttu máli svart te sem hefur verið gerjað. Gerjunin gerir það að verkum að drykkurinn stútfyllist af góðgerlum, nauðsynlegum ensímum og vítamínum og þá sérstaklega B-vítamínum. 

„Þrátt fyrir að kombucha sé tiltölulega nýtt fyrirbæri á Íslandi í dag, þá er drykkurinn talinn vera rúmlega tvö þúsund ára gamall og hefur lengi verið nefndur „The Immortal Health Elixir“ eða „Ódauðlega heilsuseyðið“ af Kínverjum. Heilsubomba er ekki það eina sem lýsir kombucha heldur er drykkurinn líka kolsýrður sem gerir hann að frábærum staðgengil fyrir hefðbundið gos. En hver drekkur svo sem ennþá gosdrykki í dag?“ segir Rafn í pistli á síðu sinni sem ber yfirskriftina Ert þú ekki örugglega að drekka kombucha?

Við fengum því Rafn til að deila sinni útgáfu af drykknum vinsæla. 

Það sem þarf

  • 3,5 l vatn
  • 2,5 dl hrásykur
  • 8-10 pokar svart te
  • 5 dl kombucha úr tilbúinni flösku
  • ávextir, jurtir eða ávaxtasafi
  • pottur
  • stórt glerílát
  • klútur eða grisja
  • flöskur
  • trekt

Ræktun á SCOBY

Fyrsta skref er að sjóða 3,5 l af vatni og bæta við 8-10 pokum af lífrænu svörtu tei. Ég læt það sjóða með pokunum í 10 mínútur.  

Á meðan það sýður bæti ég við 2,5 dl af hrásykri (sem bakteríurnar og gerið nærast á). Þessu leyfi ég að kólna og helli þá yfir í stórt ílát. Því næst bæti ég við botnfylli af kombucha sem ég hef keypt úti í búð (sem er nú þegar gerjað) til þess að fá bakteríurnar úr því sem munu búa til það sem kallast SCOBY (Symbiotic Culture Of Bacteria and Yeast) eða sveppur. Þessi sveppur er ástæðan fyrir gerjuninni.

Ég set klút yfir ílátið sem andar aðeins og geymi á dimmum stað við stofuhita í 2-3 vikur (þar til sveppurinn hefur fengið að vaxa og er farinn að líta út eins og íslensk pönnukaka.

Kombucha-gerð

Núna þegar sveppurinn er kominn er hægt að byrja á kombucha-gerð. Þú hellir öllu innihaldinu úr fyrsta skammtinum en skilur smá botnfylli eftir. Endurtaktu síðan allt ferlið (sjóða te, bæta sykrinum, kæla). Þessu hellir þú í ílátið með sveppnum og botnfyllinni og geymir inni í skáp í 1-2 vikur með klút sem andar ofan á. Þú getur smakkað þetta til eftir viku til að athuga hvort þetta sé klárt.  Þú vilt finna örlítið sætt bragð og smá ediksbragð.

Þegar þú telur kombucha vera klárt, þá hellir þú því í flöskur og bætir við því bragði sem þú vilt, þetta getur verið djús, ávextir eða jurtir. Geymdu flöskurnar við stofuhita í 1-3 daga eða þar til kolsýra byrjar að myndast, opnaðu þær daglega til þess að athuga hversu mikil kolsýra er komin. Þegar næg kolsýra er komin þá má færa kombucha í kæli og byrja að njóta!

Ath. ekki láta kombucha-flösku standa of lengi við stofuhita, of mikil kolsýra getur sprengt flöskuna og ekki láta málmáhöld komast í mikla snertingu við sveppinn (SCOBY).

mbl.is/Rafn Franklín
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert