Tyrkneskur undrastrákur á leið til Englands?

Nuri Sahin fagnar marki sínu fyrir Tyrki gegn Þjóðverjum í …
Nuri Sahin fagnar marki sínu fyrir Tyrki gegn Þjóðverjum í gær. Reuters

Sautján ára gamall tyrkneskur piltur, Nuri Sahin, hefur slegið í gegn að undanförnu með Dortmund og landsliði Tyrklands. Chelsea hefur fylgst grannt með honum eins og áður hefur komið fram og umboðsmaður stráksins sagði í dag að Liverpool og Arsenal hefðu staðfest áhuga sinn á honum.

Nuri Sahin varð 17 ára í september og í ágúst varð hann yngsti leikmaður í þýsku 1. deildinni frá upphafi þegar hann lék 16 ára og 335 daga gamall með Dortmund. Í gær lék hann sinn fyrsta A-landsleik fyrir Tyrkland, kom inná sem varamaður gegn Þýskalandi á 86. mínútu og skoraði, 2:0, þremur mínútum síðar en leikurinn endaði með sigri Tyrkja, 2:1.

"Draumur hans er að spila í Englandi og þar er Chelsea eitt af stóru liðunum, en Arsenal og Liverpool hafa líka sýnt honum mikinn áhuga. Ég hef þó ekki trú á því að Dortmund selji hann strax," sagði umboðsmaðurinn, Kazim Avci.

Arsenal bauð 2,5 milljónir punda, tæpar 300 milljónir króna, í Sahin í sumar en Dortmund hafnaði boðinu. Talið er að þýska félagið ætli ekki að láta hann fara fyrir minna en 10-14 milljónir punda, eða vel á annan milljarð króna.

"Hann er framtíðarmaður hjá okkur og á eftir að láta vel til sín taka í 1. deildinni með okkur. Við erum ekki með nein áform um að selja hann," sagði Hans-Joachim Watzke, framkvæmdastjóri Dortmund.

Sjá einnig enski.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert