Hamas og Jihad semja um vopnahlé á Gasasvæðinu

Börn að leik í Shijaiyeh hverfinu í Gasaborg í gær.
Börn að leik í Shijaiyeh hverfinu í Gasaborg í gær. AP

Forsvarsmenn palestínsku samtakanna Hamas og Jihad sömdu um vopnahlé síðastliðna nótt eftir tveggja daga átök liðsmanna samtakanna á Gasasvæðinu. Einn maður lést og átján slösuðust í átökum samtakanna um helgina en spenna mun hafa verið að byggjast upp á milli liðsmanna þeirra á undanförnum vikum Þetta kemur fram á fréttavef Ha’aretz.

Átök helgarinnar brutust út í bænum Rafah á laugardag eftir að liðsmenn Jihad reyndu að ræna liðsmanni Hamas-samtakanna. Liðsmenn öryggissveita Hamasamtakanna komu hins vegar í veg fyrir mannránið og handtóku fimmtán liðsmenn Jihad í kjölfar þess.

Til átaka kom einnig á milli liðsmanna Hamas-samtakanna og Fatah hreyfingarinnar á Gasasvæðinu í gær og létu tveir menn lífið í þeim og tuttugu særðust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert