16 ára fangelsi fyrir manndráp

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/ÞÖK

Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í morgun 31 árs gamlan karlmann, Bjarka Frey Sigurgeirsson, í 16 ára fangelsi fyrir manndráp. Honum er einnig gert að greiða foreldrum mannsins, sem hann banaði, tvær milljónir í skaðabætur og tvær milljónir í sakarkostnað.

Bjarki Freyr var ákærður fyrir að verða  Braga Friðþjófssyni að bana í Dalshrauni í Hafnarfirði síðastliðinn ágúst. Bjarki Freyr var fundinn sekur um að hafa slegið Braga minnst fimm þung högg í höfuðið með tréborði og vöfflujárni. Við það hlaut Bragi mörg brot á höfuðkúpu og alvarlega áverka á heila, leiddi það til dauða hans.

Bjarki Freyr játaði að hafa slegið Braga en fram kemur í dómnum að  minni hans sé gloppótt um atvik. Dómnum þótti sekt Bjarka Freys sönnuð, með skýlausri  játningu hans og rannsóknargögnum að öðru leyti.

Vísað er til þess, að samkvæmt frásögn Bjarka Freys virðist hann ekki hafa verið með sjálfum sér á verknaðarstund vegna langvarandi áfengis- og fíkniefnaneyslu. Óljóst sé hvað honum gekk til með verkinu en frásögn hans af því að Bragi hafi haft hníf undir höndum fái ekki stoð í gögnum málsins. Sama sé að segja um þá fullyrðingu að Bjarki Freyr hafi verið bitinn í fingur.  

Segir dómurinn síðan, að árás Bjarka Freys hafi verið osafengin og hrottaleg og honum hafi hlotið að vera ljóst að hún myndi leiða til dauða Braga. Við mat á refsingu sé litið til þess að Bjarki Freyr hafði ásetning til þess að vinna slíkt tjón sem raun varð og komi því engar refsilækkandi ástæður til álita.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert