Fjórir látnir í óeirðum

Lík og líkamspartar voru á svæðinu þar sem sprengjan sprakk …
Lík og líkamspartar voru á svæðinu þar sem sprengjan sprakk í Rawalpindi í dag. AP

Að minnsta kosti 4 hafa látið lífið í óeirðum í Pakistan í kjölfar þess að Benazir Bhutto, fyrrum forsætisráðherra landsins, var myrt á kosningafundi í Rawalpindi í dag. Morðið hefur verið fordæmt um allan heim og stjórnvöld í Pakistan hafa jafnframt verið hvött til að hvika ekki af leiðinni til lýðræðis. Þriggja daga þjóðarsorg var í dag lýst í Pakistan.

Tveir létu lífið í borginni Lahore þar sem kveikt var í verslunum, rútum og fólksbílum. Þá heyrðist öðru hvoru skothríð í borginni.

Þá voru tveir aðrir skotnir til bana í Sindh-héraði í suðurhluta landsins. Þar laust saman lögreglu og mótmælendum.

Meðal þeirra þjóðarleiðtoga sem fordæmt hafa morðið eru Manmohan Singh, forsætisráðherra Indlands, og Hamid Karzai, forseti Aftanistans. Singh sagði, að Bhutto hefði verið framúrskarandi leiðtogi, sem vann að lýðræði á sáttum í landi sínu.

Karzai átti fyrr í dag fund með Bhutto í Islamabad en þaðan fór hún á fundinn í Rawalpindi. Sagði hann að Bhutto hefði verið hugrökk dóttir múslimaheimsins. 

Stuðningsmenn Bhutto brenna kosningamerki annarra stjórnmálaflokka í Rawalpindi í dag.
Stuðningsmenn Bhutto brenna kosningamerki annarra stjórnmálaflokka í Rawalpindi í dag. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert