Funda með Kínverjum um efnahag

Efnahagur heimsins hefur verið í niðursveiflu undanfarin misseri, og Kínverjar …
Efnahagur heimsins hefur verið í niðursveiflu undanfarin misseri, og Kínverjar hafa fundið fyrir því. Staða efnahagsmála í Kína getur versnað til muni fari svo að lægð í Bandaríkjunum verði djúp. Reuters

Þingmenn í Bandaríkjunum freista þess nú að styrkja sambandið við Kína í von um að það leiði til betri tíðar fyrir efnahagslíf heimsins. Fulltrúar frá Demókrötum og Repúblikönum er nú staddir í Kína til þess að efla tengsl og ræða um lausnir á vandanum.

Kínverska ríkið er umfangsmikill fjárfestir í Bandaríkjunum, sérstaklega á skuldabréfamarkaði. Kína á mikið undir því að bandarískur efnahagur nái sér aftur á strik. Tölur sem seðlabanki Bandaríkjanna birti í gær, þykja benda til að samdrátturinn í bandarískum efnahag hafi hingað til verið vanmetinn.

Í viðtali við AFP-fréttastofuna segir Mark Kirk, sem fer fyrir hópi Repúblikana sem staddir eru í Kína, að fyrst og fremst sé einblínt á stöðu efnahagsmála í heiminum. „Við leggjum áherslu á efnahagsmál, öðru fremur, og þá helst hvernig Bandaríkin og Kína geta unnið saman að því að ná heiminum upp úr þeirri lægð sem þegar hefur leikið þjóðir grátt,“ sagði Kirk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert