Blair sagður sverma fyrir ESB

Tony Blair.
Tony Blair. Reuters

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, er að sverma fyrir væntanlegu embætti forseta Evrópusambandsins, sem komið verður á fót ef ný stjórnarskrá hlýtur samþykki allra aðildarríkja. Formaður flokkahóps Græningja á Evrópuþinginu fullyrti þetta í dag.

„Blair fer nú á milli allra landanna og vill verða forseti ráðsins," sagði franski Evrópuþingmaðurinn Daniel Cohn-Bendit á þingfundi Evrópuþingsins í Strassborg.

Cohn-Bendit kvartaði yfir því hve embættismenn Evrópusambandsins væru uppteknir af frægu fólki. Til stendur að greiða atkvæði um það á morgun á þinginu hvort staðfesta eigi skipun Portúgalans José Manuel Barroso í embætti forseta framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til næstu fimm ára. 

Sagði Cohn-Bendit að starfsfólk Evrópusambandsins hefði meiri áhyggjur af því hver ætti að skipa hvaða embætti en loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem haldin verður í Kaupmannahöfn í desember og leiðtogafundi G20 ríkjanna í Bandaríkjunum í næstu viku.

Nú skiptast aðildarríki Evrópusambandsins á að fara með forsæti sambandsins hálft ár í senn. En samkvæmt svonefndum Lissabon-sáttmála, sem kann að öðlast gildi á næsta ári, verður sérstakur forseti Evrópusambandsins kjörinn. 

Blair hefur verið sérstakur sendimaður Evrópusambandsins, Rússlands, Bandaríkjanna og Sameinuðu þjóðanna í málefnum Miðausturlanda. Þá hefur hann einnig beitt sér fyrir því, að skrifað verði undir nýjan loftslagssáttmála í desember.

Breskur ráðherra sagði í sumar, að Blair væri frambjóðandi breskra stjórnvalda í embætti forseta Evrópusambandsið en talsmaður hans neitaði því og sagði, að ekki væri hægt að vera frambjóðandi í starf, sem ekki væri til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert