Segja Hasan ekki tengjast hryðjuverkahópum

Alls létust 13 og 29 særðust í árásinni í Fort …
Alls létust 13 og 29 særðust í árásinni í Fort Hood-herstöðinni í Texas. Reuters

Bandaríska alríkislögreglan (FBI) segir að hergeðlæknirinn Nidal Hasan, sem er grunaður um að hafa skotið 13 að bana í Fort Hood-herstöðinni í Texas í síðustu viku, tengist ekki hryðjuverkamönnum.

Hasan vakti athygli FBI í desember sl. í tengslum við rannsókn sérsveitar, sem berst gegn hryðjuverkahópum, á öðru ótengdu máli. Hann þótti hins vegar ekki vera neitt sérstakt áhyggjuefni. 

Rannsóknarlögreglumenn hafa sagt að samskipti hans við annan aðila hafi verið í takt við starf hans sem geðlæknis hjá hernum.

Hasan liggur nú á sjúkrahúsi og er kominn til meðvitundar, en lögreglumenn særðu hann í kjölfar árásanna sl. fimmtudag. Alls létust 13 og 29 særðust í árásinni.

FBI segist ekki hafa neinar upplýsingar undir höndum sem tengi Hasan við aðra aðila, eða að hann sé hluti af stóru hryðjuverkaneti.

Alríkislögreglan hefur ekki nefnt einstaklinginn á nafn sem Hasan átti í samskiptum við. Þá hefur hún ekki staðfest að um róttækan klerk sé að ræða sem býr í Jemen. Málið sé í rannsókn.

Nidal Malik Hasan.
Nidal Malik Hasan. Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert