Svíar viðurkenna að framið hafi verið þjóðarmorð á Armenum

Úr sænska þinginu.
Úr sænska þinginu.

Ríkisdagurinn, sænska þingið, samþykkti í dag þingsályktun þar sem viðurkennt er að framið hafi verið þjóðarmorð á Armenum og öðrum minnihlutahópum árið 1915 þegar ríki Ottómana var að liðast í sundur.

Ályktunin var samþykkt með 1 atkvæðis mun og sænska ríkisstjórnin, sem styður aðild Tyrkja að Evrópusambandinu, hvatti til þess að hún yrði felld. Carl Bildt, utanríkisráðherra, ítrekaði eftir að niðurstaðan lá fyrir, að afstaða ríkisstjórnarinnar sé óbreytt.

Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar kom á óvart en fjórir þingmenn stjórnarflokkanna studdu ályktunina, sem stjórnarandstaðan lagði fram. 

Armenía segir, að allt að 1,5 milljónir Armena hafi verið myrtar meðan á fyrri heimsstyrjöldinni stóð. Hafi leiðtogar Ottóman-veldisins staðið fyrir útrýmingarherferð til að reyna að hindra að veldið leystist upp.

Tyrkir vísa því hins vegar algerlega á bug, að þeir beri ábyrgð á þjóðarmorði á Armenum. Segja þeir að 300 til 500 þúsund Armenar hafi látið lífið og að minnsta kosti jafn margir Tyrkir í borgarastyrjöld sem braust út þegar Armenar gerðu uppreisn og lögðust á sveif með innrásarher Rússa.  

Þingnefnd Bandaríkjaþings samþykkti ályktun fyrr í þessum mánuði þar sem tekið er undir að framið hafi verið þjóðarmorð á Armenum. Tyrkir brugðust ókvæða við og kölluðu sendiherra sinn heim frá Washington til skrafs og ráðagerða.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert