Franskur hershöfðingi dæmdur fyrir barnaklám

Eiffel turninn í París.
Eiffel turninn í París. Reuters

Fyrrverandi aðalráðgjafi frönsku ríkisstjórnarinnar á sviði hernaðarmála hefur fengið tíu mánaða skilorðsbundinn dóm fyrir að hala niður þúsundum klámmynda af börnum. Á sumum ljósmyndanna mátti sjá börn sem aðeins eru sex mánaða gömul.

Ráðgjafinn, sem heitir Raymond Germanos og er fimm stjörnu hershöfðingi, er rétt tæplega sjötugur. Hann hefur verið einn æðsti stjórnandi franska hersins og starfaði sem hernaðarráðgjafi hjá tveimur fyrrverandi varnarmálaráðherrum á tíunda áratug síðustu aldar.

Fyrir dómi í París var hann dæmdur fyrir að hafa í vörslu sinni ljósmyndir og myndbandsupptökur af börnum frá sex mánaða og upp í tólf ára aldri. Efnið halaði hann niður af netinu á fjögurra ára tímabili sem lauk um mitt ár 2008.

„Við húsleit í húsinu þínu fann lögreglan a.m.k. 3.000 barnaklámsmyndir á hörðum diski í tölvunni þinni sem og á USB-tengi,“ sagði Marie-Francoise Guidolin dómari m.a. þegar hún kvað upp úrskurð sinn.

Sagði hún myndirnar með því ógeðfelldara sem lagt hefði verði fram í dómstólnum, þarna væri m.a. að finna myndir af mjög ungum börnum sem augljóslega væru fórnarlömb viðbjóðslegra gjörða.

Frönsku lögreglunni barst ábending gegnum Interpol frá rannsóknarlögreglufólki í Austurríki sem tekist hafði að greina netfang Germanos þegar hann halaði niður efni af austurrískum vef.

Germanos lýsti mikilli iðrun við réttarhöldin, en tók fram að  hann hefði eytt myndunum eftir að hafa skoðað þær þar sem hann hefði ekki sóst eftir því að geyma umrætt efni. Sérfræðingum lögreglunnar tókst hins vegar að endurheimta efnið. Sagðist hann hafa halað myndunum niður á „mjög erfiðu tímabili í lífi“ hans stuttu eftir að hann greindist með heilaæxli.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert