Besta pítsa heimsins áströlsk

Wikipedia/Valerio Capello

Dómarar á heimsmeistaramótinu í pítsubakstri sem fram fór í ítölsku borginni Parma um síðustu helgi komust að þeirri niðurstöðu að besta margarítupítsan væri ekki ítölsk heldur frá Ástralíu. Fyrstu verðlaun í þeim efnum fékk ástralski matreiðslumaðurinn Johnny Di Francesco sem rekur veitingahúsið 400 Gradi í Brunswick-úthverfinu í Melbourne í Ástralíu.

Fram kemur á fréttavef bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar CNN að Di Francesco, sem er 36 ára að aldri, hafi haft betur en 600 aðrir keppendur frá 35 löndum. Sigurinn hafi vakið mikla athygli á litla veitingahúsinu hans. Haft er eftir honum að viðbrögðin hafi verið ótrúleg. Hann hafi einfaldlega tekið þátt í keppninni vegna þess að hann elskaði að baka pítsur en hann hafi ekki átt von á þessari athygli.

„Margir halda að það sé einfalt að gera margarítupítsur en í raun er einna erfiðast að gera þær,“ er ennfremur haft eftir honum. Hægt sé að hafa fela bragðið af deiginu ef alls konar áleggstegundir eru settar á pítsuna en þegar margarítupítsur eru bakaðar er ekki hægt að gera það sé eitthvað ekki eins og það eigi að vera. Di Francesco segist ennfremur hafa bakað pítsur frá 12 ára aldri og hafa lært iðnina á Ítalíu. 

Þá segir að ítalskir matreiðslumenn hafi ekki farið alveg tómhentir heim frá keppninni en Ítalinn Julius Scialpi hafi hlotið fyrstu verðlaun í flokknum sígildar pítsur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert