Sá myndir af þjófnum á iCloud

Spjaldtölva
Spjaldtölva AFP

Maður var hendtekinn í Mílanó fyrir stuld á iPad eftir að eigandinn sá mynd af sökudólgnum í gegnum myndabanka sem tengdur var spjaldtölvunni.

Tölvan var tekin úr bíl 52 ára gamals manns í Mílanó fyrir nokkrum vikum.

Í fyrstu áttaði eigandinn sig ekki á því hvers vegna sífellt voru að birtast fjölskyldumyndir af óþekktum manni á iCloud, sem er myndabanki tengdur tölvunni.

En eftir að maðurinn sá mynd af manninum á Piazza San Marco, torginu þaðan sem tölvunni var stolið, fór hann að tengja saman punktana.

Þegar hann leitaði til lögreglu þekkti hún þjófinn um leið. Um var að ræða 25 ára gamlan góðkunningja hennar sem hafði fengið nokkra dóma fyrir þjófnaði og önnur smáafbrot.

Þegar lögreglan bar undir hann stuldinn neitaði hann öllu í fyrstu. Annað hljóð kom í strokkinn þegar hún sýndi honum myndirnar sem birst höfðu í myndabanka eiganda tölvunnar.

Í kjölfarið viðurkenndi maðurinn sök sína og fór í fylgd lögreglu að heimili sínu þar sem hann afhenti tölvuna.

The Local segir frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert