Bílsprengja varð 14 að bana

Mikil eyðilegging blasir við.
Mikil eyðilegging blasir við. AFP

Bifreið hlaðin sprengiefni sprakk við fjölfarna verslunargötu í höfuðborginni Bagdad í Írak í dag. AFP-fréttaveitan greinir frá því að minnst 14 hafi látið lífið í tilræðinu.

Sprengjan sprakk um klukkan hálfsex að staðartíma í hverfi shía-múslima. Sjónarvottar segja fjölmarga hafa verið við verslunargötuna þegar atvikið átti sér stað, en við hana má m.a. finna vinsæla veitingastaði og tísku- og skartgripaverslanir.

Fréttaveita AFP hefur það eftir háttsettum lögreglumanni að 14 séu látnir og 43 særðir. Meðal hinna látnu eru liðsmenn lögreglu- og öryggissveita borgarinnar.

Bílsprengjur eru nær daglegt brauð í Bagdad. Telja Sameinuðu þjóðirnar að minnst 1.119 manns hafi í síðasta mánuði fallið í vopnuðum átökum í landinu. Flestir þeirra eru almennir borgarar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert