Fyrirskipar rannsókn á spillingu í Kabúl-banka

Ashraf Ghani.
Ashraf Ghani. AFP

Ashraf Ghani, nýr forseti Afganistans, fyrirskipaði í dag nýja rannsókn á stórfelldum svikum, sem leiddu til falls stærsta banka landsins, Kabúl-banka, árið 2010. Rannsóknin á að vera til marks um fyrirætlanir Ghanis, sem tók við embætti á mánudag, um að uppræta víðtæka spillingu í landinu.

Hrun Kabúl-banka afhjúpaði spillingu í efstu lögum afgansks samfélags. 900 milljónir dollara (109 milljarðar króna) voru sviknar út úr bankanum. Vaknaði mikil reiði erlendra aðila, sem lögðu fram fé til uppbyggingr, yfir að það skyldi hverfa í vasa einstaklinga á meðan landið var í greipum ofbeldis og fátæktar.

Svikin fóru þannig fram að gervifyrirtæki fengu lán og fénu var komið úr landi - meðal annars í matarbökkum farþegaflugvéla - til þess að kaupa fasteignir í Bretlandi, Dúbaí, Sviss og Bandaríkjunum.

Einn af bræðrum Hamids Karzais, forvera Ghanis á stóli forseta, var flæktur í málið sem og bróðir Mohammads Qasims, sem var varaforseti og nú er látinn. Báðir voru hluthafar í bankanum, en ásakanir á hendur þeim voru aldrei rannsakaðar.

Tveir stjórnendur Kabúl-banka voru settir í fangelsi í fyrra og 18 til viðbótar voru sekir fundnir. Dómstólar voru hins vegar gagnrýndir harðlega fyrir væga dóma og fundið var að því að höfuðpaurarnir í fjársvikunum skyldu ekki vera dregnir fyrir dóm.

„Fyrsta skrefið í að uppfylla loforðið um að berjast gegn sviksamelgu athæfi verður að taka upp á ný Kabúl-bankamálið í dag með gagngerum hætti og fylgja því eftir til að tryggja réttindi almennings,“ sagði Ghani í dag. „Tími aðgerða er runninn upp eins og við lofuðum og baráttan gegn spillingu mun fara fram með gagngerum og kerfisbundnum hætti.“

Stjórnvöld tóku Kabúl-banka yfir 2010 eftir að svikin komu fram. Málið varð til þess að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn stöðvaði lánveitingar til Afganistans og þjóðir, sem lagt höfðu fram fé, kröfðust aðgerða til að stöðva spillingu.

Ghani sagði ítrekað í kosningabaráttunni að hann myndi reyna að ná þeim, sem hefðu verið á bak við stjórnvöld höfðu lýst sem „umfangsmesta og flóknasta peningamisferli“ í sögu landsins. Ghani var fjármálaráðherra 2002 til 2004 og gat sér þá orð fyrir baráttu gegn spillingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert