Reyna að hindra útbreiðslu ebólu í Bandaríkjunum

Bandarísk heilbrigðisyfirvöld eru byrjuð að rekja samskipti manns sem greindist með ebólu í Bandaríkjunum við annað fólk frá því hann kom til Bandaríkjanna frá Líberíu.

Maðurinn er í einangrun á sjúkrahúsi í Dallas en greint var frá því í gær að staðfest væri að hann væri smitaður af ebólu.

Framkvæmdastjóri sóttvarnareftirlits Bandaríkjanna (CDC), Tom Freiden, segir í samtali við ABC sjónvarpsstöðina að hann efist ekki um að það takist að koma í veg fyrir að ebóla dreifist víða um Bandaríkin. 

Hann segir að sjúklingurinn verði beðinn um að upplýsa um ferðir sínar og hverja hann hafi hitt eða haft samskipti við. Hið sama gildir um fjölskyldu hans.

Ekki hefur verið upplýst um hver maðurinn er en Frieden hefur staðfest að hann kom til Bandaríkjanna frá Líberíu þann 20. september sl. Hann dvaldi hjá fjölskyldu sinni í Bandaríkjunum þegar hann fékk fyrstu einkenni veirunnar. 

Að sögn Frieden var maðurinn ekki með nein einkenni þegar hann flaug til Bandaríkjanna og ítrekar að sjúklingar smiti ekki fyrr en þeir fá einkenni sjúkdómsins.

Fyrstu einkennin komu fram hjá manninum þann 24. september eða fjórum dögum eftir komuna til Bandaríkjanna. Hann leitaði læknishjálpar þann 26. september og var greindur og settur í einangrun þann 28. september sl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert