Stefnt að plastpokalausri París

Þetta gæti farið að heyra sögunni til meðal Parísarbúa
Þetta gæti farið að heyra sögunni til meðal Parísarbúa AFP

Plastpokabann er rætt víða um heim og er Frakkland þar ekki undanskilið. Borgarstjórn Parísar stefnir að því að borgin verði fyrsta plastpokalausa borgin þar í landi en orkumál voru rædd á franska þinginu í vikunni.

Í frétt á The Local vefnum kemur fram að það hefur lengi verið á stefnuskrá ríkisstjórnar sósíalista að útrýma plastpokum og nú virðist það takmark vera að færast nær þar sem lagt er til að hætt verði að bjóða upp á plastpoka í matvöruverslunum landsins.

Ségoléne Royal, umhverfisráðherra, segir að að það sé mikilvægt skref sem stigið verður ef því markmiði verður náð. Það að fá plastpoka í matvörubúðinni sé eitthvað sem tilheyri fortíðinni.

Samkvæmt frumvarpi til laga verða plastpokar bannaðir í verslunum frá og með 1. janúar 2016. Þegar talað er um plastpoka er ekki verið að tala um plastpoka sem eru margnota eða brotna auðveldlega niður í náttúrunni. Þrátt fyrir að ekki sé bann í gildi þá hefur stórlega dregið úr plastpokanotkun í Frakklandi. 

Borgarstjórinn í París, Anne Hidalgo, hefur tekið saman höndum með matvöruverslunarkeðjum borgarinnar um að reyna að gera borgina fyrstu borgina í Frakklandi þar sem plastpokar eru ekki notaðir. 

Twitter færsla borgarstjórans í París
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert