Sjaldgæf sjón í Japan

Masako krónprinsessa í gær.
Masako krónprinsessa í gær. AFP

Japanska krónprinsessan Masako tók í gær þátt í veisluhöldum vegna komu hollensku konungshjónanna en þetta er í fyrsta skipti í ellefu ár sem hún tekur þátt í slíkum opinberum veisluhöldum.

Masako er eigin kona krónprinsins Naruhito sem mun erfa japönsku krúnuna. Masako hefur glímt við streitutengd veikindi allt frá því hún giftist inn í keisarafjölskylduna árið 1993.

Allt frá því dóttir þeirra fæddist árið 2001 hefur hún afar sjaldan sést opinberlega. Hún tók einnig þátt í athöfn við komu hollensku konungshjónanna í gærmorgun en hún hefur ekki tekið þátt í athöfnum við komu útlendra þjóðarleiðtoga í fimm ár, samkvæmt frétt BBC. 

Í fyrra fór Masako prinsessa ásamt fjölskyldu sinni til Hollands og var viðstödd krýningarhátíð konungsins þar og þótti það merki um að hún  væri á batavegi.

Masako prinsessa er fædd 9. desember 1963 en faðir hennar var stjórnarerindreki á vegum japanska ríkisins. Vegna starfa föður hennar nam hún við skóla í Moskvu og Boston áður en hún fór í nám við Harvard háskóla. Masako talar nokkur tungumál reiprennandi og hóf hún störf í japönsku utanríkisþjónustunni árið 1987. 

Samkvæmt frétt BBC hafnaði hún bónorði Naruhito í tvígang þar sem hún óttaðist hvernig líf það yrði að verða hluti af keisarafjölskyldunni en þau gengu hins vegar í hjónaband árið 1993. Þau misstu fóstur árið 1999 en tveimur árum síðar fæddist dóttir þeirra Aiko prinsessa. Er talað um að mikil fjölmiðlaumræða og takmarkað frelsi hjá hirðinni hafi ýtt undir veikindi prinsessunnar en afar grannt er fylgst með lífi fjölskyldunnar í fjölmiðlum. 

Willem-Alexander konungur Hollands og Maxima drottning ásamt Akihito keisara og …
Willem-Alexander konungur Hollands og Maxima drottning ásamt Akihito keisara og Michiko keisaraynju. Masako krónprinsessa sést fyrir aftan þau á myndinni. AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert