Mikið ber í milli í Vínarborg

Utanríkisráðherra Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier, ásamt kollega sínum frá Íran, Javad …
Utanríkisráðherra Þýskalands, Frank-Walter Steinmeier, ásamt kollega sínum frá Íran, Javad Zarif. AFP

Enn ber mikið í milli í kjarnorkuviðræðum við Írana, segir John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Aðilar virðast vera að missa trú á því að niðurstaða fáist fyrir gefinn frest á mánudaginn. 

„Viðræðurnar hafa gengið hægt og lítið hefur gerst af viti. Möguleikinn á því að niðurstaða fáist fyrir mánudaginn er lítill,“ segir heimildarmaður af fundinum

„Íranir verða að slá af kröfum sínum töluvert ef aðilar eiga að ná saman,“ bætti heimildarmaðurinn við og útskýrði frekar: „Markmiðið er að ná víðtæku samkomulagi. Það er ómögulegt innan frestsins.“

Aðilarnir eru nú sagðir velta fyrir sér möguleikanum á því að lengja frestinn, til þess að auka líkurnar á að samkomulag náist. 

Náist samkomulag yrði það sögulegt, að því leyti að alþjóðasamfélagið myndi þá loks hleypa Írönum inn í hlýjuna að nýju. Viðræðurnar komu til eftir að Hassan Rouhani náði kjöri sem forseti landsins í fyrra, á því kosningaloforði að binda enda á einangrun landsins. Af hálfu Írana snúast viðræðurnar um að þeir þurfi að minnka framleiðslu á auðguðu úraníumi, sem notað er til þess að framleiða kjarnorkuvopn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert