Stofna nýjan fjárfestingasjóð

Sjóðinn á að nota til að gangsetja evrópska hagkerfið.
Sjóðinn á að nota til að gangsetja evrópska hagkerfið. AFP

Jean-Claude Junker, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, kynnti í dag 315 milljarða evra fjárfestingaáætlun, sem er ætlað að koma efnahagslífi álfunnar úr hægagangi. Junker sagði að tillagan, sem verður borin undir þjóðarleiðtoga í desember, feli í sér stofnun fjárfestingasjóðs, auk áætlunar um ný verkefni í samvinnu við einkaaðila.

„Evrópa þarfnast gangsetningar og í dag leggur framkvæmdastjórnin til startkaplana,“ sagði Junker á Evrópuþinginu. „Við þurfum að senda skilaboð til Evrópu og heimsins alls: Evrópa er aftur kominn í bisness.“

European Fund for Strategic Investment mun hafa yfir 21 milljörðum evra að ráða en Junker segir að áhrif hans á efnahagslífið verði 15 sinnum meiri, eða jafnvirði 315 milljarða evra. Tillagan er hornsteinn fimm ára áætlunar Junker um endurvakningu evrópska hagkerfisins, sem hefur ekki vaxið frá því að fjármálakreppan skók heimsbyggðina.

Junker, sem áður var forsætisráðherra Lúxemborg, hefur hafnað gagnrýni um að fjárfestingasjóðurinn muni ekki innihalda „nýtt“ fé, heldur verði hann fjármagnaður með fjármunum sem þegar eru til staðar í kerfinu.

„Ég heyri oft að við þurfum svokallaða ferska fjármuni, en ég trúi því að við þurfum nýtt upphaf og ferska fjárfestingu,“ sagði Junker. „Sá peningur sem við leggjum til í dag bætist við það sem fyrir er,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka