Cameron ver leyniþjónustuna

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, varði í dag bresku leyniþjónustuna og hét því að gera út um hryðjuverkamenn innan samtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki.

Leyniþjónustan MI5 hefur legið undir gagnrýni eftir að fjölmiðlar nafngreindu manninn sem kallaður hefur verið Jihadi John og komið hefur fram í myndböndum sem sýna afhöfðanir vestrænna gísla í haldi Ríkis íslam. Maðurinn, Mohammed Emwazi, hefur verið á lista MI5 frá því árið 2009 og segja ýmsir því óskiljanlegt að honum hafi tekist að komast til Sýrlands óséður.

Cameron sagði leyniþjónustumenn í heild hafa staðið sig vel og að allt verði gert sem í valdi þeirra stendur til að koma böndum yfir Emwazi og aðra böðla íslamska ríkisins.

Emwazi, sem er fædd­ur í Kúveit, er 27 ára og menntaður í Lund­ún­um. Hann birt­ist fyrst á mynd­skeiði frá Ríki íslams í ág­úst þar sem hann sést af­höfða banda­ríska blaðamann­inn, James Foley. Jafn­framt er talið víst að hann hafi einnig tekið að sér hlut­verk böðuls­ins við af­tök­ur breska hjálparstarfsmanninum David Haines, banda­ríska blaðamanns­ins Steven Sotloff, breska leigu­bíl­stjór­ans Alan Henn­ing og banda­ríska hjálp­ar­starfs­mann­inn Abd­ul-Rahm­an Kassig, sem einnig er þekkt­ur und­ir nafn­inu Peter.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert