„Óvinur óvinar þíns er óvinur þinn.“

Netanyahu í pontu í dag.
Netanyahu í pontu í dag. AFP

Forsætisráðherra Ísrael, Benjamin Netanyahu, varaði við því að öllum heiminum stafaði hætta af Íran í ræðu sinni á Bandaríkjaþingi í dag. Þessu greinir fréttastofa BBC frá.

Netanyahu sagði að sú sáttaleið sem Íran og helstu valdhafar heims væru á í dag ryddi braut ríkisins í umleitunum þess til að koma sér upp kjarnorkuvopnum. Hann viðurkenndi að það sem hann hefði að segja væri umdeilt en staðhæfði að hann væri ekki að skipta sér af stjórnmálum innan Bandaríkjanna.

Hvíta húsið var ekki haft með í ráðum þegar ákveðið var að Netanyahu myndi koma fyrir þingið og gætir nokkurs ósættis vegna þeirrar ákvörðunar. Talsmenn Hvíta hússins hafa kvartað yfir því að með ræðunni hafi Netanyahu blandað sér í innanlands pólitík Bandaríkjanna með því að reyna að byggja upp andstöðu gegn hverskonar samningum við Íran.

Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Þýskaland, Rússland og Kína vinna nú að því að takmarka kjarnorkuáætlanir Íran gegn því að látið verði af refsiaðgerðum í garð landsins.Lokafrestur til að skola fyrstu drögum að samkomulagi um kjarnorkustefnu Íran nálgast en Netanyahu fordæmdi þær hugmyndir sem nú liggja fyrir. Aðeins tvær vikur eru í kosningar í Ísrael þar sem Netanyahu mun berjast fyrir sæti sínu í ríkisstjórninni.

Netanyahu var vel tekið á þinginu og gekk í pontu undir háværu lófataki og fagnaðarópum. Hann sagði að samband Ísrael og Bandaríkjanna yrði að standa ofar en pólitík og að hann væri þakklátur fyrir stuðning bandarísks almennings.

Hann var fljótur að snúa sér að málefnum Íran og sagði ríkið hafa sannað það síendurtekið að því væri ekki treystandi.

„Stjórn Írans er enn eins róttæk og áður, hugmyndafræðin á sér djúpar rætur í herskárri íslamstrú....[Íran] verður alltaf óvinur Bandaríkjanna,“ sagði Netanyahu. Þátttaka Írans í baráttunni gegn Ríki íslams kvað hann ekki gera ríkið vinveitt. „Óvinur óvinar þíns er óvinur þinn.“

Þegar ræðu Netanyahu lauk risu þingmenn úr sætum og klöppuðu ákaft.

Forsætisráðherranum var ákaft fagnað.
Forsætisráðherranum var ákaft fagnað. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert