Þúsundir mótmæltu hryðjuverkum

Þúsundir söfnuðust saman á götum Túnisborgar í dag en þar fór fram mótmælaganga gegn hryðjuverkum. Hrópaði fólkið „Túnis er frjálst! Burt með hryðjuverk!“ er það gekk fylktu liði að Bardo-safninu, en þar létust 21 ferðamaður og einn Túnisi í hryðjuverkaárás 18. mars síðastliðinn. 

BBC segir frá þessu. 

Forseti Frakklands, Francois Hollande, tók þátt í athöfn á safninu ásamt fleiri þjóðarleiðtogum. Fyrr í dag sögðust yfirvöld í Túnis hafa drepið einn þeirra sem grunaðir eru um að bera ábyrgð á árásinni. 

„Túnisar sönnuðu í dag að þeir hneigja sig ekki fyrir hryðjuverkum, og sem einn karl og ein kona vernda þau þjóðina. Þegar Túnis er skotmark stendur þjóðin saman sem einn,“ sagði forseti Túnis, Beji Caid Essebsi, við athöfnina í dag. 

Breskir, japanskir, franskir, ítalskir og kólumbískir ferðamenn voru meðal þeirra sem létust er vopnaðir menn réðust inn á safnið. 

Á sunnudaginn tilkynnti Hollande að Huguette Dupeu, frönsk kona sem særðist í árásinni, hefði látist af sárum sínum. Forsætisráðherra Ítalíu, Matteo Renzi, var einnig við athöfnina í dag. Þar var steintafla afhjúpuð sem helguð er minningu fórnarlambanna. 

Við athöfnina í dag hét Hollande því að frönsk yfirvöld myndu styðja þau túnísku í baráttunni gegn hryðjuverkum. 

„Fjórir franskir ríkisborgarar létust hér, fórnarlömb hryðjuverkamanna, þannig að það er nauðsynlegt að taka þátt hér í dag,“ sagði Hollande. „Dagurinn í dag er um Túnis, gildi sem landið stendur fyrir í arabaheiminum og í heiminum öllum.“

Veifaði fólkið fána Túnis og skiltum sem m.a. á stóð „Ekki hrædd“ og „Við erum Bardo“.

„Við höfum sýnt að við erum lýðræðissinnuð. Túnisar eru hófsamir og það er ekkert pláss fyrir hryðjuverkamenn hér,“ sagði Kamel Saad, sem tók þátt í göngunni í dag. 

Samkvæmt frétt BBC ákváðu nokkrir vinstrisinnaðir stjórnmálahópar að sniðganga viðburðinn í dag. Mótmæltu þeir m.a. því að íslamskur flokkur tæki þátt í göngunni, en þeim hefur verið kennt um tilvist íslamskra öfgahópa í landinu. 

Fyrr í dag sögðu yfirvöld í Túnis frá því að Lokman Abu Sakhra, sem grunaður er um að hafa skipulagt árásina, hafi látist í átökum við hersveitir í gær. 

Talsmaður ríkisstjórnarinnar lýsti honum sem hættulegasta hryðjuverkamanni Túnis en hann er alsírskur ríkisborgari. Er því haldið fram að hann hafi verið meðlimur í Okba Ibn Nafaa-flokknum sem hefur lýst yfir ábyrgð á nokkrum hryðjuverkaárásum í  landinu síðustu árin. 

Síðustu vikur hafa yfirvöld handtekið fjölmarga sem grunaðir eru um að tengjast árásinni á safnið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert