Systkinin deila nú kastljósinu

Karlotta mun deila kastljósinu með bróður sínum.
Karlotta mun deila kastljósinu með bróður sínum. AFP

Það getur verið erfitt og einmanalegt að vera konungborið barn. Börnin munu líklega aldrei þurfa að hafa áhyggjur af því að hafa ekki nóg á milli handanna en aftur á móti er sennilega minna um að þau eigi eðlileg samskipti við börn á sínum aldri.

Það er eru ekki margir sem skilja til fulls hvernig lífið innan konungshallanna er en nú getur Georg prins haft félagsskap af yngri systur sinni, Karlottu Elísabetu Díönu, og deilt með henni sorgum, gleði og kastljósinu. 

Elísabet drottning, langamma barnanna, var til að mynda mjög náin yngri systur sinni, Margréti. Þegar þær voru á barnsaldri höfðu þær lítinn félagsskap af öðrum börnum en þær fengu meðal annars kennslu heima við. Leiðir skildi ekki á fullorðinsaldri og ræddu þær saman í síma á hverjum degi.

Karl Bretaprins og systir hans Anna fæddust með 21 mánaðar millibili líkt og Georg og Karlotta. Í bréfi sem Elísabet Bretadrottning skrifaði þegar Anna var aðeins þriggja vikna gömul segir hún Karl vera heillaðan af systur sinni og hann hugsi afar vel um hana. Í seinni tíð virðast þau ekki sérstaklega náin en virðist þó koma vel saman.

Vilhjálmur og Harry misstu móður sína Díönu þegar þeir voru aðeins 15 og 12 ára. Þeir stóðu þétt saman og eru þeir sagðir vera mjög góðir vinir í dag. Díana lagði mikla áherslu á að uppeldi drengjanna yrði sem eðlilegast og virðist það einnig vera Vilhjálmi og Katrínu mikilvægt.

Konungborin systkini hafa vissulega eldað grátt silfur í gegnum tíðina. Játvarður fjórði grunaði yngri bróður sinn Georg um landráð og lét drekkja honum í víni.

Bræðurnir Vilhjálmur og Harry eru góðir vinir.
Bræðurnir Vilhjálmur og Harry eru góðir vinir. AFP
Elísabet drottning og Margrét systir hennar voru góðar vinkonur.
Elísabet drottning og Margrét systir hennar voru góðar vinkonur. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert