Vill að fjármunir berist beint til Nepal

Fjármálaráðherra Nepal vill að neyðaraðstoð vegna jarðskjálftanna sem ollu mikilli eyðleggingu í landinu fyrir einum mánuði berist beint til nepalskra stjórnvalda. Hann segir að tæplega 10% af þeim fjármunum sem stjórnvöld hafa varið til neyðaraðstoðar komi frá erlendum ríkjum.

Ram Sharan Mahat, fjármálaráðherra Nepal, segir þetta í samtali við breska ríkisútvarpið. 

Ummælin falla á sama tíma og nepölsk stjórnvöld sæta vaxandi gagnrýni fyrir það hvernig þau hafa tekið á neyðarástandinu. 

Mahta segist vona að fjármagn sem berist frá erlendum ríkjum fari beint í gegnum ríkisstjórn landsins. 

Jarðskjálftinn, sem var 7,8 stig, reið yfir Nepal 25. apríl. Annar öflugur skjálfti varð 12. maí. Yfir 8.600 létust í hamförunum og víða varð mikið eignatjón, m.a. í höfuðborginni Katmandú. 

Það hefur gengið erfiðlega að koma hjálpargögnum, m.a. tjöldum og matvælum, til afskekktra svæða og hafa íbúar gagnrýnt stjórnvöld fyrir að gera ekki nóg til að aðstoða bágstadda. 

Þúsundir hafast enn við í bráðabirgðaskýlum og óttast menn að fólkið muni ekki lifa af regntímabilið, sem hefst í næsta mánuði. Menn óttast ennfremur að aurskriður muni ennfremur fylgja í kjölfarið og sjúkdómar muni breiðast út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert