Fluttu óvart lifandi miltisbrand

Sýnin voru flutt til að minnsta kosti sex ríkja í …
Sýnin voru flutt til að minnsta kosti sex ríkja í Bandaríkjunum. Skjáskot af CNN

Fjórir starfsmenn rannsóknarstofa í Bandaríkjunum og um 22 í Suður-Kóreu fengu fyrirbyggjandi læknismeðferð eftir að bandaríski herinn flutti óvart sýni af miltisbrandi til að minnsta kosti sex ríkja í landinu sem og til Suður-Kóreu. 

Í frétt CNN kemur fram að FedEx flutningafyrirtækið hafi séð um flutning á bakteríunni til sjö fyrirtækja í að minnsta kosti sex ríkjum þann 29. apríl. Talið var að bakteríurnar væru dauðar og því var ekki gætt ýtrustu varkárni við flutninginn.

Á miðvikudag kom svo í ljós á rannsóknarstofu í Maryland að bakterían væri á lífi og var það gripið til aðgerða.

FedEx vinnur nú í náinni samvinnu við varnarmálaráðuneytið að rannsókn málsins og fyrirbyggjandi aðgerðum. 

Sérfræðingar segja, samkvæmt upplýsingum varnarmálaráðuneytisins, að almenningi stafi engin hætta af flutningnum. Engu að síður hafa fjórir starfsmenn rannsóknarstofa fengið fyrirbyggjandi læknismeðferð. Starfsmennirnir meðhöndluðu sýnin.

Eitt sýni var sent til herstöðvar í Suður-Kóreu. 22 starfsmenn þar hafa fengið fyrirbyggjandi meðferð og búið er að setja hluta stöðvarinnar í sóttkví.

 Aðeins má flytja dauðar bakteríur af þessu tagi en þær eru notaðar við hefðbundnar rannsóknir, segir í frétt CNN.

Í kjölfar atviksins verður grandskoðað hvort að rannsóknarstofur hafi fengið fleiri lifandi sýni sem þessi. Farið verður í gegnum alla verkferla til að koma í veg fyrir að þetta geti endurtekið sig, segir talsmaður Smitsjúkdómavarna Bandaríkjanna, CDC.

Frétt CNN í heild. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert