Hinsegin múslimi í Mekka

Sharma fór í pílagrímsferð til Mekka og myndaði ferðina.
Sharma fór í pílagrímsferð til Mekka og myndaði ferðina. Ljósmynd/Facebook

„Ég kalla hana Sádí-selfie myndina,“ segir kvikmyndagerðarmaðurinn og aðgerðasinninn Parvez Sharma í samtali við VICE. Sharma hefur undanfarið unnið að framleiðslu kvikmyndarinnar Syndugur í Mekka (e. A Sinner in Mecca), þar sem hann fer í pílagrímsferð til borgarinnar helgu. Vill hann með myndinni sýna hvað fer fram á þessum heilagasta stað múslima, en að sama skapi sýna fram á misbresti í sádí-arabísku samfélagi.

Sharma fer til Mekka vopnaður myndavélum sem hann notar í leyni, en myndatökur eru þó ekki eina syndin sem hann drýgir. Þannig er Sharma samkynhneigður og hefur áður framleitt kvikmynd um líf hinsegin múslima. Myndin ber heitið Heilagt stríð fyrir ástina (e. A Jihad for Love), en han kveðst hafa fengið holskeflu haturspósta og líflátshótana eftir að hún kom út árið 2013.

Fyrri mynd Sharma kom út árið 2013.
Fyrri mynd Sharma kom út árið 2013. Ljósmynd/Wikipedia

Játar trúna á eigin forsendum

„Fyrri myndin snerist að einhverju leyti um að opinbera kynhneigð mína. Sú nýja snýst í raun um að „koma út úr skápnum“ sem múslimi og lýsa því yfir að ég hyggist játa trúna á mínum eigin forsendum,“ segir Sharma.

Hann segir pílagrímsferðina sem slíka hafa skipt sig meira máli en myndin, en segir þó að sem kvikmyndagerðarmaður hefði hann aldrei getað sleppt því að taka hana upp. „Þegar ég var í Sádi-Arabíu hafði ég ekki hugmynd um hvort ég kæmist heim á lífi,“ segir Sharma, sem er búsettur í New York borg Bandaríkjanna. „Þú þarft ekki nema að fletta mér upp á netinu og þá sést allt sem ég hef gert. Trúarbragðalögreglan gengur um með kylfur, fylgist með þér og sparar ekki höggin ef svo ber undir.“

Mekka orðin „Mekka-Vegas“

Sharma er mjög gagnrýninn á Sádí-Arabíu og segir sádí-arabíska útgáfu íslam, sem hann kallar „Wahhabi íslam“, ekki ríma við sína túlkun á trúnni. „Hún er hættuleg, öfgafull og gengur út á ofbeldi. Rætur hugmyndafræði ISIS hryðjuverkahópsins koma frá Wahhabi trúnni. Hjá þeim eru m.a. allar eftirlíkingar mannslíkamans bannaðar og þ.a.l. má strangt til tekið ekki taka ljósmyndir. Samt eru myndir af kónginum á hverju strái, hversu mikill tvískinnungur er það?“ spyr Sharma.

Einstaka sinnum er kvikmyndagerðarmönnum hleypt til Mekka þar sem þeir fá að taka upp efni undir ströngu eftirliti fulltrúa ríkisins. Þetta á ekki við um mynd Sharma og segir hann það veita henni sérstöðu sína. Hann segir Sádí-Araba svívirða íslamska menningu, breyta eðlilegri túlkun á trúnni og skemma helga staði. „Mekka er að breytast í Mekka-Vegas. Sjö stjörnu hótel rísa á víð og dreif á milli gríðarstórra verslunarmiðstöðva. Þeir eyðilögðu fyrsta hús Múhameðs spámanns og settu upp klósettbása á lóðinni.“

Sharma kallar Mekka nútímans „Mekka-Vegas“
Sharma kallar Mekka nútímans „Mekka-Vegas“ Ljósmynd/Wikipedia

Öruggur ef þú segir ekki frá

Hann segist hafa kynnst talsverðum fjölda hinsegin fólks í landinu. „Við höfum komið okkur upp leynilegu samskiptakerfi og smyglum DVD-diskum yfir landamærin. Ég veit að víða hópast fólk saman í herbergjum í litlum íbúðum og horfir á myndina mína. Ég hef fengið skilaboð frá fólki sem segir myndina hafa breytt lífi sínu,“ segir Sharma.

Hann segir líf hinsegin Sádí-Araba vera svipað lífinu í öðrum múslimaríkjum. Þannig lendirðu ekki í vandræðum ef þú tjáir þig ekki um kynhneigð þína opinberlega. „Ef þú gengur ekki um göturnar með regnbogafánann í hönd ertu í lagi. Þú ert hins vegar í vandræðum ef þú ert „uppgötvaður“. Þetta er ríki sem virðir ekki mannréttindi og afhöfðanir á almannafæri fara fram reglulega. Þessu veðrur að linna,“ segir Sharma. Hann kveðst vonast til þess að mynd sín breyti viðhorfi fólks til landsins.

„Mun ég koma af stað arabísku vori í Sádí-Arabíu? Eflaust ekki. Mun þetta breyta stuðningi Bandaríkjamanna við ríkið? Ég býst ekki við því, en ég vonast allavega til þess að láta fólk hugsa öðruvísi um það sem þarna fer fram.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert