Norður-Kórea undirbýr eldflaugaprófanir

Kim Jong-un horfir gegnum sjónauka.
Kim Jong-un horfir gegnum sjónauka. AFP

Sendifulltrúi frá Norður-Kóreu sagði landið mögulega vera að undirbúa prófanir á eldflaugum í október. Alþjóðasamfélagið mun að öllum líkindum álíta slíkar tilraunir landsins vera í þeim tilgangi að prófa flugskeyti sem hægt væri að skjóta milli landa. Slíkt myndi líklega þýða frekari viðskiptaþvinganir gegn Norður-Kóreu.

Sendifulltrúinn sagði að 10. október væri 70 ára afmæli kommúnistaflokks landsins. „Ég er viss um að við munum halda stórfenglega hátíð, sagði Jang Il Hang á blaðamannafundi. Jang, sem ber ábyrgð á samskiptum Norður-Kóreu og Bandaríkjanna, sagði að landinu væri „frjálst að gera það sem það vildi.“

„Við höfum áður sagt að viðbrögð okkar við hernaðarbrölti og þrýstingi frá Bandaríkjastjórn verði þau að við nútímavæðum, stækkum og eflum kjarnorkuvopnabúr okkar.“ Í síðustu viku greindi fréttaveita í Suður-Kóreu frá því að til stæði að fagna 70 ára afmælinu með því að skjóta gervihnetti á sporbaug um jörðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert