Öfga-gyðingur fangelsaður án dóms

AFP

Ísraelska lögreglan hefur fangelsað öfgasinnaðan gyðing án réttarhalda í tengslum við íkveikju á Vesturbakkanum í síðustu viku. Átján mánaða gamall drengur lést í árásinni. Þetta er í fyrsta skipti sem ísraelsk yfirvöld beita þessu úrræði, að fangelsa án réttarhalda, gagnvart gyðingi.

Alls hafa þrír verið handteknir í tengslum við íkveikjuna en enginn þeirra er talinn hafa átt beina aðild að ódæðinu. Sá sem var fangelsaður heitir Mordechai Mayer og kemur fram í ákvörðun varnarmálaráðherra Ísraels, Moshe Yaalon, að Mayer sé fangelsaður fyrir aðild að ofbeldisverki og hryðjuverkaárás. 

Samkvæmt frétt AFP er talið að þessu úrræði verði beitt gegn þremur öfgamönnum úr hópi gyðinga í tengslum við rannsókn árásarinnar, sem stjórnvöld í Ísrael skilgreina sem hryðjuverk.

Ekki er óþekkt að Palestínumönnum sé haldið í fangelsi í allt að hálft ár á grundvelli laga sem heimila stjórnvöldum að fangelsa fólk án dóms. Alls eru 379 af þeim 5.686 Palestínumönnum sem dúsa í fangelsi í Ísrael þar á grundvelli þessa úrræðis. Fjölmargir palestínskir fangar hafa farið í hungurverkfall í gegnum tíðina til þess að mótmæla þessari stefnu stjórnvalda.

Á mánudag var Meir Ettinger, barnabarn Meir Kahane, stofnanda rasistasamtakanna Kach, sem berjast gegn aröbum, handtekinn. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald fram að helgi á grundvelli glæpa gegn þjóðinni. Ettinger var handtekinn fyrir starf sitt með öfgahreyfingu gyðinga. Talið er að Ettinger, sem er 23 ára, sé höfuðpaurinn á bak við árás á helgistað kristinna þann 18. júní. Hann hefur ekki verið formlega sakaður um að hafa átt aðild að íkveikjunni í síðustu viku.

Fordæma kaldrifjað morð á barni

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert