Opnaði glugga og var stunginn

Strætisvagn á götum Lundúnaborgar.
Strætisvagn á götum Lundúnaborgar. EPA

Farþegi um borð í strætisvagni í Birmingham í Bretlandi var um helgina stunginn eftir rifrildi. Talið er að maðurinn hafi verið stunginn eftir að hann opnaði glugga í vagninum.

Ástand mannsins er stöðugt en hann er 36 ára gamall. Lögregla hefur birt myndir úr eftirlitsmyndavélum af fimm mönnum sem grunaðir eru um að tengjast verknaðinum sem átti sér stað á laugardagskvöldið.

Að sögn rannsóknarlögreglumannsins Paul Broome er talið að átökin á milli mannanna hafi byrjað á efri hæð strætisvagnsins en endað á neðri hæðinni.  Bílstjórinn kallaði á lögreglu en hinir grunuðu höfðu flúið þegar að lögreglu bar að garði. Maðurinn var ekki lífshættulega slasaður. Ættingi hans sagði í samtali við The Birmingham Mail að læknir hefði sagt þeim að það hefði bjargað lífi mannsins að hann var klæddur þykkum jakka. „Það er ótrúlegt að þetta gerðist því hann opnaði glugga,“ er haft eftir ættingjanum.

Sky News segir frá þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert