Rof Rússa „ekkert slys“

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO.
Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO. AFP

Rof Rússa á tyrkneskri lofthelgi er „ekkert slys“ að sögn Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins (NATO). Samkvæmt BBC segir Stoltenberg Rússland ekki hafa gefið neinar raunverulegar skýringar á rofunum sem hafi átt sér stað í langan tíma.

Rússland segir rof á lofthelgi Tyrklands á laugardag aðeins hafa enst í nokkrar sekúndur og átt sér stað vegna slæmra veðurskilyrða. Verið sé að rannsaka fullyrðingar um annað rof á lofthelginni. Rússland hóf loftárásir í Sýrlandi síðasta miðvikudag.

Yfirvöld í Tyrklandi hafa tvisvar kallað rússneska sendiherrann á sinn fund, fyrst vegna atviksins á laugardag og aftur vegna brots gegn lofthelgi ríkisins sem Tyrkir segja að hafi átt sér stað á sunnudag.

Stoltenberg segir rof Rússlands á Tyrkneskri lofthelgi óásættanleg og að NATO líti málið mjög alvarlegum augum. Sagði hann að NATO og Rússland hefðu opnar samskiptalínur milli hersveita sem hefðu ekki verið notaðar, en að það hefði verið eðlilegt. Sagði hann Rússland hafa byggt mikið upp herafla sinn í Sýrlandi og að það væri mikið áhyggjuefni.

Rússland segir Íslamska ríkið og aðra herskáa öfgahópa vera skotmörk sín í Sýrlandi en NATO hefur áhyggjur af því að Rússland beini árásum sínum fyrst og fremst á hópa sem eru andsnúnir forseta Sýrlands, Bashar al-Assad. Vladimir Pútín, forseti Rússlands hefur hafnað ásökunum um að óbreyttir borgarar hafi látist í loftárásum Rússa á liðinni viku en sönnunargögn á jörðu niðri segja aðra sögu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert