Sex mánaða stúlka fannst í rústunum

Björgunaraðilar að störfum á vettvangi.
Björgunaraðilar að störfum á vettvangi. AFP

Sex mánaða gamalli stúlku var bjargað í gær úr rústum húss sem hrundi í Naíróbí í Kenía á föstudaginn. Stúlkan var föst í rústunum í áttatíu klukkustundir.

Að sögn björgunaraðila fannst stúlkan eftir að faðir hennar kallaði nafn hennar og hún fór að gráta. „Á sama tíma lyfti hún upp hendinni (...) hún var á lífi í húsinu,“ sagði björgunarmaðurinn Ralson Wasike í samtali við CNN. Stúlkan heitir Dealeryn Saisi Wasike og var henni bjargað um klukkan fjögur að nóttu að staðartíma. Þótti það kraftaverk hversu lítið stúlkan var slösuð en það mátti varla sjá á henni skrámu. Dealeryn er nú með föður sínum á sjúkrahúsi.

„Ég fann dóttur mína og ég er hamingjusamur,“ sagði hann í samtali við CNN en bætti við að eiginkona hans hafi látið lífið þegar að byggingin hrundi.

Stúlkan fannst þegar að björgunaraðilar á vegum Rauða krossins notuðu sérstakan búnað sem greinir öndun í rústum. Stúlkan fannst vafin inn í blátt teppi ofan í fötu.

Að minnsta kosti 23 létu lífið þegar að byggingin, sem var sjö hæðir, hrundi á föstudaginn í kjölfar mikillar rigningar. Byggingin hafði þegar verið dæmd óhæf til þess að búa í og er eigandi hennar nú í haldi lögreglu.

136 manns hefur verið bjargað úr rústunum, þar af tveimur öðrum ungum börnum.

Ekki liggur fyrir hvað olli því að húsið hrundi en íbúar þess sögðu að gólfin hefðu verið fyrst til þess að brotna  þegar að mikill rigningastormur gekk yfir svæðið.

Fyrri frétt mbl.is: Sjö hæða hús hrundi

Byggingin sem hrundi hafði þegar verið dæmd óhæf til þess …
Byggingin sem hrundi hafði þegar verið dæmd óhæf til þess að búa í og er eigandi hennar nú í haldi lögreglu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert