Myndband af hópnauðgun skekur Brasilíu

Lögreglumaður í Río de Janeiro. Myndin er úr safni og …
Lögreglumaður í Río de Janeiro. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki. AFP

Lögreglan í Brasilíu leitar nú fleiri en þrjátíu manna sem grunaðir eru um að hafa nauðgað táningsstúlku í Ríó de Janeiro og að birta myndband af grimmdarverkinu á Twitter. Hópnauðgunin hefur hrundið af stað herferð gegn því sem baráttufólk kallar nauðganamenningu í Brasilíu.

Stúlkan er sextán ára gömul og segist hún halda að sér hafi verið byrluð ólyfjan þegar hún fór heim til kærasta síns á laugardag. Hún hafi rankað við sér, nakin og sár, í öðru húsi umkringd mönnunum. Hún hafi síðan komið sér heim. Handtökutilskipanir hafa verið gefnir út á hendur þeim, þar á meðal kærastanum. 

Það var fyrst nokkrum dögum síðar sem hún komst að því að mennirnir höfðu birt myndband af verknaðinum á netinu. Myndbandið er 40 sekúndna langt og fylgdi því þráður athugasemda uppfullur af kvenfyrirlitningu. Aðganginum þar sem myndbandið birtist var síðan lokað.

Fréttaritari breska ríkisútvarpsins BBC í Brasilíu segir að málið hafi valdið mikilli hneykslan. Baráttuhópar hafi boðað til mótmæla næstu daga. Reiðin hefur meðal annars brotist út á samfélagsmiðlum undir myllumerkinu #EstrupoNuncaMais, eða #Aldreiafturnauðgun.

UN Women, stofnun Sameinuðu þjóðanna um réttindi kvenna, hefur hvatt yfirvöld til þess að rannsaka málið en að virða stúlkuna og gera hana ekki að fórnarlambi aftur með því að brjóta á friðhelgi einkalífs hennar.

Sérfræðingar telja að ekki sé tilkynnt um fjölda nauðgana í Brasilíu vegna ótta fórnarlambanna við hefndaraðgerðir, skömm og að vera kennt um ofbeldið sem þau verða fyrir.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert