Sprengjuhótun stöðvaði för hjákonu

Frá flugvellinum í Genf.
Frá flugvellinum í Genf. AFP

Hefnigjörn eiginkona manns sem var að halda fram hjá henni hefur verið dæmd í sex mánaða fangelsi fyrir að hafa hringt inn sprengjuhótun á flugvellinum í Genf. Ástæðan er sú að hún vildi koma í veg fyrir að hjákona mannsins kæmist í frí.

Eiginkonan, sem er 41 árs fjögurra barna móðir, brást við framhjáhaldi eiginmannsins með þessum óvenjulega hætti.

Vegna sprengjuhótunarinnar þurfti að grípa til mikilla aðgerða á flugvellinum. Rýma þurfti flugstöðina, leita þurfti aftur á 13 þúsund farþegum og í farangri þeirra, auk þess sem tuttugu öryggisverðir til viðbótar voru kallaðir til.

Þó nokkrum flugferðum var frestað vegna hótunarinnar.

Svissneska lögreglan rakti símtalið til franska bæjarins Annecy, þar sem konan bjó. Bærinn er í innan við klukkustundar fjarlægð frá flugvellinum í Genf í bíl.

Konan fékk sex mánaða dóm og þarf hún að dúsa í fangelsi í að minnsta kosti þrjá mánuði.

„Hérna er á ferðinni mál þar sem særð kona, sem hefur verið gift í 22 ár, hringdi inn sprengjuhótun eingöngu vegna pirrings,“ sagði lögfræðingur hennar, Tiphaine Barone, í samtali við dagblaðið Le Dauphine Libere.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert