Dvaldi við lúxus í fangelsinu

Þrjú herbergi voru í fangaklefanum sem geymdi flatskjá, bókasafn, og …
Þrjú herbergi voru í fangaklefanum sem geymdi flatskjá, bókasafn, og dvd diskasafn. AFP

Lögreglan í Paragvæ framkvæmdi á dögunum leit í fangelsisklefa eiturlyfjabaróns og komst að því sér til undrunar að þar lifði hann sannkölluðu lúxuslífi. Fangaklefinn reyndist vera þriggja herbergja og hafði að geyma fundarherbergi, flatskjá, bókasafn og eldhús.

Það er brasilíski eiturlyfjabaróninn Jarvis Chimenes Pavao sem dvaldi í fangaklefanum, sem nú er búið að endurinnrétta í samræmi við almenna fangaklefastaðla.

Lögreglunni hafði borist til eyrna að Pavao væri að skipuleggja flótta úr fangelsinu og hygðist sprengja gat í vegg fangelsisins, en Pavao átti að ljúka afplánun vegna peningaþvættis á næsta ári og mun að því loknu líklega verða framseldur til Brasilíu þar sem fleiri ákærur bíða hans.

Pavao hefur nú verið færður í sérstaka deild innan Tacumbu-fangelsisins sem er ólík munaðinum sem hann bjó við í fyrri klefa.

Rannsókn stendur nú yfir á því hvaða embættismenn hafi heimilað innanhússbreytingarnar á fangelsinu sem gerðu Pavao kleift að útbúa klefann.

AFP-fréttastofan hefur eftir öðrum föngum í fangelsinu að Pavao hafi boðist til að leigja þeim klefann fyrir 5.000 dollara eingreiðslu og síðan 600 dollara vikulega leigu.

„Hann var vinsælasti maðurinn í fangelsinu,“ sagði fanginn Antonio Gonzalez við AFP. Í lúxusklefanum var einnig að finna loftræstingu, einkabaðherbergi og dvd-diskasafn, sem m.a. geymdi sjónvarpsþáttaröð um líf eiturlyfjabarónsins Pablos Escobars.

Fangaklefinn var einnig með sérstakt eldhús.
Fangaklefinn var einnig með sérstakt eldhús. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert