Gekk með líkið heim á leið

Mynd úr safni
Mynd úr safni AFP

Örsnauður Indverji bar lík konu sinnar 12 km heim á leið  frá sjúkrahúsi þar sem hún hafði látist en honum var gert að fjarlægja líkið. Maðurinn hafði ekki ráð á leigubíl. 

Eiginkona Dana Majhi, Amang 42 ára, lést úr berklum á héraðssjúkrahúsinu í bænum Bhawanipatna í Orissa-ríki. Majhi segir að þorpið sem þau búi í sé í 60 km fjarlægð og hann hafi ekki haft efni á að leigja bíl. Sjúkrahúsyfirvöld segja þetta ekki rétt hjá honum. 

„Konan var lögð inn á sjúkrahúsið á þriðjudag og lést sama kvöld. Eiginmaður hennar fór í  burtu með líkið án þess að láta nokkurn starfsmann sjúkrahússins vita,“ segir B. Brahma, einn stjórnenda.

Majhi segir að Amang hafi látist á þriðjudagskvöldið og hann gengið af stað með líkið á miðvikudeginum eftir að starfsfólk spítalans hafi ítrekað sagt honum að taka líkið. 

„Ég grátbað starfsfólk sjúkrahússins um að útvega bifreið til þess að flytja lík konu minnar án árangurs. Þar sem ég er fátækur maður og hafði ekki ráð á að leigja bíl átti ég engra annarra kosta völ en að bera lík hennar á öxlinni,“ segir Majhi í viðtali við BBC.

Snemma á miðvikudagsmorgni vafði hann líkið inn í teppi og hóf gönguna í þorpið þar sem veita átti henni nábjargirnar. Með í för var Chaula tólf ára gömul dóttir þeirra. Bálförin fór fram í gærkvöldi.

Þegar héraðsstjórinn í Kalahandi, Brunda D, frétti af ferðalaginu með lík Amangs þá pantaði hún bifreið til þess að flytja líkið heim. Hún segist hafa gert þetta um leið og hún frétti af málinu. Eins hafi hún óskað eftir fjárhagsstuðningi fyrir fjölskylduna til þess að kosta bálförina. 

Í febrúar var tilkynnt  að alltaf yrði boðið upp á akstur fyrir lík þeirra sem ekki hafa ráð á að leigja bíl af sjúkrahúsinu. En svo virðist vera að minna hafi verið um efndir en til stóð þar sem ítrekað hefur fólk þurft að fara heim með lík ástvina á reiðhjólum, hjólbörum og jafnvel vöggum.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert