„Eru fíkniefnaneytendur menn?“

AFP

Yfirvöld á Filippseyjum segja að meira en 1.800 manns hafi verið líflátin án dóms og laga frá því að Rodrigo Duterte varð forseti landsins 30. júní eftir að hafa lofað „stríði gegn eiturlyfjum“. Flestir þeirra sem hafa verið drepnir eru meintir eiturlyfjasalar eða fíkniefnaneytendur en á meðal þeirra er einnig saklaust fólk sem varð á vegi dauðasveitanna, þeirra á meðal fimm ára barn.

AFP

Þótt embættismenn Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasamtök hafi gagnrýnt manndrápin benda skoðanakannanir til þess að forsetinn njóti óhemjumikilla vinsælda á Filippseyjum. Í einni þeirra sögðust 91% þátttakendanna bera „mikið traust“ til Duterte í forsetaembættinu.

Ríkislögreglustjóri hvatti til morða og íkveikju

Forsetinn hefur vísað gagnrýni á mannréttindabrotin á bug og jafnvel hótað því að Filippseyjar segi sig úr Sameinuðu þjóðunum haldi embættismenn samtakanna áfram að gagnrýna hann. „Glæpur gegn mannkyninu? Í fyrsta lagi vil ég vera hreinskilinn við ykkur: eru þeir menn? Hver er skilgreiningin á manni?“ sagði Duterte í ræðu sem hann flutti þegar hann heimsótti herstöð á Filippseyjum á föstudagskvöld. „Mannréttindi? Notið þetta orð í réttu samhengi ef þið hafið vit til þess.“

AFP

Forsetinn sagði einnig að réttlætanlegt væri að drepa fíkniefnaneytendur án dóms og laga vegna þess að í mörgum tilvikum væri ekki hægt að venja þá af fíkninni. „Það er ekki hægt að heyja stríð án þess að drepa.“

Áður hafði ríkislögreglustjóri Filippseyja, Ronald Dela Rosa, hvatt fíkniefnaneytendur til að drepa eiturlyfjasala og kveikja í heimilum þeirra. „Hvers vegna takið þið ekki hús á þeim, hellið niður bensíni á heimili þeirra og kveikið í því til að sýna reiði ykkar?“ hefur fréttaveitan AFP eftir ríkislögreglustjóranum.

Forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte.
Forseti Filippseyja, Rodrigo Duterte. AFP

Dela Rosa baðst seinna afsökunar á þessum ummælum en forsetinn varði ríkislögreglustjórann. „Þetta er minn stíll og hann fylgir honum.“

Ríkislögreglan á Filippseyjum sagði í vikunni sem leið að lögreglumenn hefðu drepið 756 manns án dóms og laga í „stríðinu gegn eiturlyfjum“. Ríkislögreglustjórinn sagði að aðrir hópar sem tækju þátt í stríðinu hefðu drepið 1.067 manns til viðbótar. Þar að auki hefðu um 600.000 manns gefið sig fram við yfirvöld og viðurkennt brot á fíkniefnalöggjöfinni.

Á meðal þeirra sem hafa verið drepnir er fimm ára stúlka, sem varð fyrir byssukúlu þegar vopnaðir menn réðust inn í hús fjölskyldu hennar í árás sem beindist að afa hennar. Stúlka á táningsaldri lét lífið í skotárás þegar hún var farþegi í bíl lögmanns sem var skotinn til bana fyrir að hafa varið meintan fíkniefnasala. Hermt er að dauðasveitir hafi skotið marga fíkniefnaneytendur í hnakkann eftir að hafa ráðist inn á heimili þeirra. Í einni árásanna var tveggja ára gömul dóttir meints fíkniefnaneytanda klædd úr öllum fötunum og káfað var á henni til að athuga hvort fíkniefni hefðu verið falin í endaþarmi hennar, að því er fram kemur í grein í tímaritinu The New Yorker.

Beitti dauðasveitum

Rodrigo Duterte er 71 árs, fæddist 28. mars 1945 í Leyte-héraði. Faðir hans var lögfræðingur og um tíma héraðsstjóri Davao-héraðs á Mindanao-eyju. Móðir hans var kennari, komin af múslímum úr röðum innfæddra íbúa suðurhluta Filippseyja en faðir hans var kaþólskur.

Duterte gekk í háskóla í Manila og var um tíma félagi í kommúnistahreyfingu sem hóf blóðuga uppreisn. Eftir nám í lögfræði varð hann saksóknari. Hann hóf afskipti af stjórnmálum árið 1986 þegar þáverandi forseti, Corazon Aquino, gerði hann að aðstoðarborgarstjóra Davao, eftir að einræðisherranum Ferdinand Marcos var steypt af stóli. Duterte var síðan borgarstjóri Davao á árunum 1988 til 1998 og 2001 til 2010. Hann hóf herferð gegn glæpum og spillingu í borginni og til þess beitti hann dauðasveitum sem mannréttindasamtök segja að hafi myrt yfir 1.400 manns í Davao þegar hann var borgarstjóri, meðal annars börn.

Manndrápin í stríðinu gegn fíkniefnum komu ekki á óvart því að Duterte hét þeim áður en hann var kjörinn forseti í maí með 39% atkvæða. „Öll ykkar sem eruð í eiturlyfjum, tíkarsynirnir ykkar, ég drep ykkur,“ sagði hann í apríl. „Gerið skyldu ykkar og ef þið drepið 1.000 manns vegna þess að þið gerið skyldu ykkar skal ég vernda ykkur,“ sagði hann við lögreglumenn daginn eftir að hann tók við forsetaembættinu.

Duterte naut mikils stuðnings meðal menntaðra kjósenda, miðstéttarfólks og Filippseyinga sem starfa erlendis. Hann fékk einnig mikið fylgi meðal múslíma, sem eru um 5%, og margir kaþólskir kjósendur studdu hann þótt hann kallaði Frans páfa „hóruson“ vegna umferðarteppu sem varð í Manila þegar páfi heimsótti Filippseyjar í fyrra.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert