Ekkert vopnahlé við Kúrda

AFP

Tyrknesk yfirvöld segja ekkert hæft í fréttum sem höfð eru eftir bandarískum embættismönnum um að Tyrkir hafi gert vopnahlé við Kúrda í norðurhluta Sýrlands.

Omer Celik, sem fer með samskipti Tyrklands við Evrópusambandsins í ríkisstjórn Tyrklands, segir að Tyrkir muni aldrei komast að samkomulagi við kúrdíska vígamenn. Tyrkland sé sjálfstætt ríki og taki sjálft ákvarðanir í sínum málum ekki Bandaríkjamenn. 

Bandarískur embættismaður greindi frá því í gær að sýrlenskir uppreisnarmenn, sem njóta stuðnings frá tyrkneskum yfirvöldum, og hersveitir Kúrda, sem hafa barist í norðurhluta Sýrlands að undanförnu, hafi samið um tímabundið vopnahlé. Þess í stað muni hersveitirnar sameinast í baráttunni gegn vígasveitum Ríkis íslams. Aðeins sé um lauslegt samkomulag að ræða en vonast sé til þess að það haldi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert