Reglulegt farþegaflug hefst í dag

Anthony Foxx, samgöngumálaráðherra Bandaríkjanna, þegar samkomulag um farþegaflugið var undirritað …
Anthony Foxx, samgöngumálaráðherra Bandaríkjanna, þegar samkomulag um farþegaflugið var undirritað í febrúar. AFP

Nýjasti kaflinn í bættum samskiptum Bandaríkjanna og Kúbu verður skrifaður í dag þegar reglulegt farþegaflug á milli landanna tveggja hefst, það er í fyrsta sinn í rúm fimmtíu ár.

Flugvél frá flugfélaginu JetBlue tekur á loft frá Fort Lauderdale á Flórída í dag með 150 farþega um borð. Eftir um klukkutíma flug mun vélin lenda á flugvellinum Santa Clara á Kúbu, 280 kílómetrum austur af Havana.

„Þetta er nýr dagur fyrir Kúbu-ferðamennsku og við höfum undirbúið okkur vel fyrir hann. Við erum stolt af því að bjóða upp á ferðir til og frá Kúbu á viðráðanlegu verði og með góðri þjónustu,“ sagði aðstoðarforstjóri JetBlue.

Raul Castro, forseti Kúbu, í miðjunni.
Raul Castro, forseti Kúbu, í miðjunni. AFP

Síðasta reglulega farþegaflugið á milli landanna tveggja var farið árið 1961 en þá var slíkum ferðum hætt vegna kalda stríðsins.

Samgöngumálaráðherra Bandaríkjanna, Anthony Foxx, mun ferðast til Kúba síðar í þessari viku til að hitta ráðamenn þar í landi.

Bandaríkin og Kúba samþykktu í febrúar að hefja beint farþegaflug á milli landanna tveggja á nýjan leik. Samningurinn var hluti af samkomulagi sem Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, og Raul Castro, forseti Kúbu, gerðu í desember árið 2014 um bætt samskipti sín á milli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert