Vilja leggja 5.840 milljarða í varnarmál

Japanska varnarmálaráðuneytið birti þessa mynd fyrr í mánuðinum en hún …
Japanska varnarmálaráðuneytið birti þessa mynd fyrr í mánuðinum en hún sýnir skip kínversku strandgæslunnar sigla nærri hinum umdeildu eyjum. Kínverjar hafa komið fyrir radarbúnaði á svæðinu, sem nota má í hernaðarlegum tilgangi. AFP

Japanska varnarmálaráðuneytið hefur farið fram á 5.840 milljarða króna fjárveitingu til að mæta auknum hernaðarviðbúnaði Kínverja umhverfis nokkrar eyjar í Austur-Kínahafi. Um er að ræða metupphæð, en þetta verður fimmta árið í röð sem fjárframlög Japana til varnarmála eru aukin frá því að forsætisráðherrann Shinzo Abe tók við völdum 2012.

Abe hét því að efla herinn vegna sóknar kínverska flotans og kjarnorkuáætlunar Norður-Kóreu.

Síðustu ár hefur áhersla japanskra stjórnvalda í varnarmálum verið að færast frá hafsvæðinu sem liggur að Rússlandi og að eyjakeðjunni sem teygir sig frá meginlandi Japan í átt að Taívan.

Stór hluti þess búnaðar sem Japanir hyggjast bæta í vopnabúr sitt er ætlaður til að mæta mögulegum ógnum gegn japönsku landsvæði í Austur-Kínahafi, m.a. Senkaku-eyjum, sem stjórnvöld í Kína hafa einnig gert tilkall til.

Á teikniborðinu er m.a. herafli sem er jafnvígur á sjó og landi, og gæti brugðist skjótt við ef Kínverjar gera tilraun til að ná eyjunum á sitt vald.

Stærsti einstakli kostnaðarliðurinn er þó uppfærsla á PAC-3 eldflaugakerfi landsins, sem er úrslitavörn Japans gegn kjarnorkuárás, eða hefðbundinni árás, af hálfu Norður-Kóreu.

Ítarlega frétt um málið er að finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert