Héldu úti Facebook síðu fyrir Ríki íslams

Fáni Ríkis íslams. Fimmmenningarnir eru ákærðir fyrir að hvetja til …
Fáni Ríkis íslams. Fimmmenningarnir eru ákærðir fyrir að hvetja til árása og fyrir að gegna hlutverki milligöngumanns í nýliðasöfnun Ríkis íslams í Evrópu. Af vef Wikipedia

Fimm manns voru handteknir í  dag á Spáni, Belgíu og Þýskalandi og eru þeir grunaðir um að hafa séð um að breiða út áróður í Evrópu fyrir hryðjuverkasamtökin Ríki íslams á netinu.

Spænska innanríkisráðuneytið greinir frá málinu og segir tvo hafa verið handtekna í Barcelona, einn í Melilla,  spænskri nýlendu Marokkó, einn í Brussel og annar í Wuppertal í Þýskalandi.

Fjórir hinna handteknu voru Spánverjar og einn Marokkóbúi.

Hópurinn notaði samfélagsmiðla til að bera út  boðskap sinn, aðallega Facebook síðu þar sem hugmyndir íslamskra öfgahópa voru kynntar „undir því yfirskini að verið væri að greina trúarlega texta,“ segir í yfirlýsingu ráðuneytisins. Þá hafi aðgerðir sjálfsvígsmanna verið lofaðar á síðunni, sem og mikilvægi þess að einstaklingar fórnuðu sér í heilögu stríði.

Um 32.500 manns fylgdust með síðunni og bættust 500 nýir áskrifendur við í hverri viku.

Fimmmenningarnir eru ákærðir fyrir að hvetja til árása og fyrir að gegna hlutverki milligöngumanns í nýliðasöfnun Ríkis íslams í Evrópu.

Hópurinn er sagður hafa verið „alvarleg og áþreifanleg ógn við öryggi Vesturlanda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert