Ein kona enn ásakar Trump

Í kjölfar kappræðanna í nótt milli Hillary Clinton og Donald Trump fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum þar sem Trump sagði að ásakanir frá níu konum um kynferðisofbeldi væru algjörlega rangar hefur enn önnur kona stigið fram og sakað Trump um óviðeigandi háttalag. Frá þessu er greint á fréttavef New York Times.

Karen Virginia sem er jógaleiðbeinandi frá New York sagði að atvikið hafi átt sér stað þegar hún beið eftir bílfari fyrir utan United States Open tennismótið árið 1998, 27 ára að aldri. 

Virginia segist hafa heyrt Trump tala í hópi karlmanna um fótleggi hennar. Hann hafi síðan nálgast hana, gripið í höndina og þreifað á öðru brjóstinu.

„Veistu ekki hver ég er?“ mun Trump hafa sagt þegar hún hvikaði. 

Þegar bílfarið kom segir Virginia að áfallið hafi breyst í skömm. 

„Ég skammaðist mín fyrir að vera klædd í stuttum kjól og hælum.“

Virginia - sem er tíunda konan sem stígur fram og ásakar forsetaframbjóðandann um kynferðisofbeldi síðan myndbandi var lekið þar sem Trump gortaði sig af slíku framferði -  átti erfitt með að halda aftur tárunum þegar hún tjáði sig á blaðamannafundi sem lögfræðingur hennar Gloria Allred boðaði til. Allred var kjörmaður fyrir Hillary Clinton á landsþingi Demókrata í Fíladelfíu síðastliðinn júlí. 

Jessica Ditto, talsmaður Trump, hefur brugðist við þessum ásökunum og kallar Allred „ótrúverðugan pólitískan leikmann“ sem væri aftur í samhæfðu átaki með kosningamaskínu Clintons til að rægja Trump. 

„Kjósendur eru þreyttir á að heyra um svona sirkúskúnstir og hafna þessum uppspunnu sögum sem ætlað er að gagnast Clinton-framboðinu.“

Karen Virginia í tárum þegar hún les tilkynningu á blaðamannafundinum …
Karen Virginia í tárum þegar hún les tilkynningu á blaðamannafundinum með lögfræðingi sínum Gloriu Allred. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert